Fara í efni

Gleðilegt sumar!

Það blása hlýir vindar og notalegir um landið þessa dagana enda segir almanakið okkur að í dag sé fyrsti dagur sumars. Það er að vísu skammgóður vermir því spáð er kólnandi á nýjan leik næstu daga. En þannig er nú einu sinni íslenska vorið, tvö skref áfram og eitt til baka! En hvað sem veðri og vindum líður skal fagna vori og sumri með viðeigandi hætti í dag, á sumardaginn fyrsta.

Árið 2018 sendi Þorbjörg Jónasdóttir, sem starfaði til fjölda ára í VMA, frá sér ljóðabókina Hefurðu séð sandspóann - örsöguljóð frá ómunatíð. Þar yrkir hún m.a. um vorið:

vor

þegar hlýr hnúkaþeyrinn 
kemur sunnan af fjöllum
og lækirnir æða
yfir bakka sína

áin ryður sig
með brestum og bramli
og jakarnir byltast
í mórauðum flaumnum

græn gróðurnálin
gægist upp með húsveggnum
og kisa teygir úr sér
í sólskininu á dyrahellunni

þá er vorið komið

----

Verkmenntaskólinn á Akureyri óskar landsmönnum öllum gleðilegs sumars!