Glæsileg sýning hársnyrtinema
Núna á haustönn hafa nemendur á fimmtu önn í hársnyrtiiðn unnið markvisst að undirbúningi hársnyrtisýningar sem var haldin í Gryfjunni í VMA sl. föstudagskvöld. Harpa Birgisdóttir kennari, sem kenndi nemendum þennan áfanga og leiðbeindi þeim í undirbúningi sýningarinnar, segir að mjög vel hafi til tekist og sýningin hafi verið nemendum til sóma. Undirbúningur slíkrar sýningar og framkvæmd hennar sé nemendum afar dýrmæt reynsla.
Í sýningarskrá segja nemendur:
Undirbúningur lokaverkefnis fyrir tískusýningu hársnyrtinema felur í sér að velja stíl og sköpun. Nemendur þróa hugmyndir, æfa sig í framkvæmd og huga að fyrirkomulagi sýningarinnar. Verkefnið veitir nemendum tækifæri til að sýna hæfileika sína og sköpunargáfu.
Þegar sýning af þessum toga er undirbúin er margs að gæta. Meta þarf hvort skuli vera einn rauður þráður í allra sýningunni, sem allir ellefu nemendurnir fylgja, eða hvort hver og einn spinnur sinn þráð. Fyrir valinu varð að hver og einn nemandi var með sitt eigið þema. Hér má sjá upplýsingar um nemendur og áherslur þeirra í sýningunni eða lokaverkefni 2025, eins og yfirskrift sýningarinnar var. Hver nemandi var með 3-5 módel og því voru þau í það heila því sem næst fjörutíu. Fjölbreytnin í sýningunni var því mikil. Hilmar Friðjónsson kennari tók þessar myndir af sýningunni í Gryfjunni.
Tvö fyrirtæki lögðu nemendum lið við undirbúning sýningarinnar, annars vegar Húsasmiðjan og hins vegar Halldór Jónsson ehf.