Fara í efni

Glaðir útskriftarnemar á dimmision

Væntanlegir útskriftarnemar – sem útskrifast á þessu ári – þ.e. í maí og í desember – skemmtu sér og öðrum á árlegri dimmision í VMA í dag. Eins og vera ber tóku nemendur daginn snemma og ferðuðust í opnum vögnum um bæinn að morgni dags til þess að kveðja kennara sína með formlegum hætti og síðan lá leið þeirra í skólann sem hefur fóstrað þá undanfarna vetur. Þar trufluðu þeir kennslu og síðan var efnt til Gryfjuleika þar sem kennarar og útskriftarnemar reyndu með sér í hinum ýmsu leikjum. Að því loknu var útskriftarnemum boðið upp á kaffi og skúffuköku á kennarastofunni og síðan var farið upp í rútu sem flutti nemendur í óvissuferð út fyrir bæinn. Gleðin skein úr hverju andliti og dagurinn var sannarlega ánægjulegur í alla staði.

Hér má sjá nokkrar myndir sem voru teknar á dimmision í VMA í morgun.