Fara í efni

Gjöf frá 30 ára útskriftarnemendum skólans

Hluti af hópnum sem kom færandi hendi í VMA
Hluti af hópnum sem kom færandi hendi í VMA

Á útskriftinni í vor kom fram að þeir sem útskrifuðust frá VMA árið 1991 myndu hittast í júní til að rifja upp vinskap og tímann í VMA fyrir 30 árum. Þessi hópur hittist 12. júní s.l. og af því tilefni komu nokkrir úr hópnum í VMA og færðu skólanum peningagjöf í sjóð fyrir efnaminni nemendur.

Það er alltaf gaman að taka á móti fyrrum nemendum skólans og labba um með hópinn sem finnur minningar í hverju horni. Það voru rifjaðar upp kennslustundir með hinum ýmsu kennurum og einhverjir hrekkir voru opinberaðir. Þessi hópur var í VMA á þeim tíma þegar kennt var á fjórum stöðum í bænum; hér á Eyrarlandsholtinu, í gamla Húsmæðraskólanum, í gamla Iðnskólanum (þar sem nú er Icelandair hótel) og í Íþróttahöllinni. Í húsnæði VMA var aðallega kennt í B-álmu, verkstæðin í málmiðn voru komin, íþróttir í kjallara undir málmsmíðaverstæðinu og Gryfjan var án þaks og bara möl og sandur. 

Í korti til skólans frá útskriftarnemum 1991 stendur: Við þökkum fyrir þann góða tíma sem við áttum í skólanum og þá fínu menntun sem við hlutum. Við berum ávallt tilfinningar til skólans okkar og berum hag hans fyrir brjósti.

VMA þakkar fyrir hlýhug til skólans og nemenda hans.