Fara í efni

Gettu betur æfing í Gryfjunni

Lið kennara og Gettu betur lið VMA í Gryfjunni.
Lið kennara og Gettu betur lið VMA í Gryfjunni.

Gettu betur lið VMA er nú á fullu í undirbúningi sínum fyrir keppnina sem að venju hefst í janúar nk. á Rás 2. Liður í undirbúningnum var keppni sem efnt var til í Gryfjunni í dag milli Gettu betur liðsins og liðs úr röðum kennara. Skemmst er frá því að segja að nemendur í Gettu betur liðinu höfðu nokkuð öruggan sigur.

Í Gettu betur liði VMA í vetur eru Viktor Helgi Gunnarsson, nemandi á náttúruvísindabraut, Stefán Pétur Sigurðarson, nemandi í húsasmíði, og Inga Sóley Viðarsdóttir, nemandi í hársnyrtiiðn.

Í spurningaleiknum í dag – sem var skipt í hraða- og bjölluspurningar eins og í alvöru Gettu betur keppni – skipuðu lið kennara Elín Björk Unnarsdóttir, stærðfræðikennari, Vilhjálmur Kristjánsson, sem kennir vélstjórnargreinar, og Börkur Már Hersteinsson, líffræðikennari.

Spyrill var Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA, og um stigaskráningu og tímavörslu sáu Anna Kristjana Helgadóttir, sem er þjálfari Gettu betur liðsins í vetur, og Maríanna Vilborg Hjálmarsdóttir, skemmtanastjóri Þórdunu.