Fara í efni

Gengið miklu betur en ég þorði að vona

Ása Sverrisdóttir stefnir á háskólanám eftir VMA.
Ása Sverrisdóttir stefnir á háskólanám eftir VMA.

Ása Sverrisdóttir, 48 ára húsmóðir á Akureyri, móðir þriggja barna á grunnskólaaldri, lét gamlan draum rætast og nú hillir undir námslok því hún útskrifast með stúdentspróf af textílsviði listnámsbrautar í næsta mánuði. Ása situr stíft við vefstólinn þessa dagana og vinnur lokaverkefnið sitt.

„Ég byrjaði í SÍMEY í „Menntastoðum“ og það kom til greina að halda áfram í Háskólabrú en mér hugnaðist sú leið ekki  og því kom ég hingað í Verkmenntaskólann í ársbyrjun 2011. Ástæðan fyrir því að ég ákvað loks að fara í framhaldsnám var einföld; ég var ómenntuð og því voru mér flestir vegir ófærir á vinnumarkaði.  Mér stóðu þó til boða störf þar sem ekki er krafist menntunar en oftar en ekki eru þau mjög illa launuð og útilokað að þau dugi til framfærslu fjölskyldu. Það var því ekkert annað að gera en að drífa sig aftur á skólabekk eftir langt hlé. Ég hafði lengi látið mig dreyma um að fara í framhaldsskóla en hafði mig aldrei af stað. En það var vissulega afar erfitt fyrir mig að taka þetta skref því ég á ekki góðar minningar úr grunnskóla og þær öðru fremur orsökuðu á sínum tíma að ég hætti í skóla og auk þess var ég einfaldlega hrædd við busun í framhaldsskólum sem þá var í gangi en er núna á undanhaldi.
Ég man að það voru þung skref fyrir mig þegar ég loks ákvað að drífa mig af stað og ég kom fyrst hér innfyrir dyr. Mér fannst skrítið að setjast á skólabekk með unglingum en ég komst fljótt að raun um að það var ástæðulaus hræðsla eða ótti því krakkarnir hérna eru alveg yndislegir og tóku mér strax vel. Og ekki síður eru kennarnir hér frábærir, upp til hópa einstaklega þolinmóðir og hjálplegir. Þetta hefur gengið miklu betur en ég þorði að vona. Á gamals aldri veit maður meira en maður heldur. Ég vissi hreinlega ekki að ég væri svona gáfuð,“ segir Ása og hlær.

Til að byrja með segist Ása hafa farið í bóklegt nám á félagsfræðibraut og síðan lá leiðin í textílnámið á listnámsbraut sem hún segir að hafi verið mjög skemmtilegt og gefandi. Og nú eru einungis nokkrar vikur eftir í stúdentinn.

„En þótt ég ljúki stúdentsprófinu fyrir jól ætla ég engu að síður að halda áfram námi hér í VMA á vorönn. Þá ætla ég að taka átján einingar í hinum ýmsu bóklegu fögum og styrkja mig enn frekar fyrir háskólanám, því ég er ákveðin í að láta ekki staðar numið þegar ég lýk náminu hér í VMA. Ég hef ekki ákveðið endanlega hvaða háskólanám verður fyrir valinu en eflaust mun það tengjast umönnun eða samskiptum við fólk á einhvern hátt.  Ég á mér þann draum að setja einhvern tímann á stofn einhvers konar áfangahús hér á Akureyri fyrir konur sem eru að koma úr áfengismeðferð. Til þess að svo megi verða þarf ég að mennta mig frekar,“ segir Ása.

Hún segir að þær hugmyndir sem stjórnvöld hafa viðrað um að þrengja möguleika fólks 25 ára og eldri til náms í framhaldsskóla leggist mjög illa í hana. „Ég veit hreinlega ekki hvort er til orð í íslensku sem nær yfir þessar hugmyndir? Nái þessar hugmyndir fram að ganga væri þetta að mínu mati ótrúlega mikil afturför í skólamálum hér á landi. Aðstæður fólks geta verið mjög mismunandi og það er því fullt af fólki í sömu sporum og ég sem hefur af ýmsum ástæðum hætt í grunnskóla á sínum tíma en vill og hefur möguleika til að ljúka framhaldsskólanámi síðar. Margt af þessu fólki hefur einhverra hluta vegna ekki getað farið í framhaldsskóla að loknum grunnskóla og mér sýnist að þessar hugmyndir stjórnvalda útiloki þetta fólk frá því að taka stúdentspróf í  framhaldsskóla. Ég vil leyfa mér að segja að ef þessar hugmyndir verða að veruleika sé það samfélaginu hreinlega til skammar,“ segir Ása.