Fara í efni

Gengið í Fossdal

Hópurinn við vitann á Sauðhólsmel í Fossdal.
Hópurinn við vitann á Sauðhólsmel í Fossdal.

Fyrir röskri viku, þriðjudaginn, 23. október sl., fóru nemendur í áfangum „Heilbrigði og útivist“ á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA í útivistarferð út á Kleifar við vestanverðan Ólafsfjörð. Þaðan var gengið út í Fossdal sem er ystur af dölum Ólafsfjarðar.  

Með í för var Ólafur H. Björnsson, kennari, sem þekkir þetta svæði vel, enda er hann frá Ólafsfirði og hefur gengið mikið á fjöll bæði austan og vestan fjarðarins.

Mikil náttúrufegurð er á leiðinni út í Fossdal og útsýnið einstaklega tilkomumikið, eins og þessar myndir, sem Ólafur H. Björnsson tók í ferðinni, bera vitni um. Austan Ólafsfjarðar blasir við Múlakolla, sem er 984 metra há, og þar má glögglega sjá móta fyrir gamla Múlaveginum. Sá vegur var tekinn í notkun árið 1966 en lagður af sem akvegur þegar byrjað var að keyra um Múlagöng undir lok árs 1990. Austan Eyjafjarðar sést til  Látrastrandar og í góðu skyggni sést vel út í Grímsey.

Frá bænum Ytri-Á á Kleifum er gengið eftir kindagötum norður með hlíðum Arnfinnsfjalls eða Finninum eins og fjallið er oftast kallað. Þetta er þægileg gönguleið og tekur sem næst klukkustund frá Ytri-Á út í Fossdal. Fyrir mynni dalsins, uppi á svonefndum Sauðhólsmel, er viti. Við blasir Hvanndalabjarg sem er hæsta standberg frá sjó á Íslandi, 630 m þar sem það er hæst.

Eftir að hafa notið útsýnisins og náttúrufegurðarinnar gekk hópurinn til baka og áfram frá Kleifum og niður í Ólafsfjarðarbæ. Menntaskólinn á Tröllaskaga var sóttur heim og þar tók íþróttakennari skólans á móti hópnum. Að lokinni skemmtilegri heimsókn var haldið heim á leið til Akureyrar með strætó.