Gengið að Skólavörðu
Á haustönn er jafnan í boði valáfangi í útivist þar sem, eins og nafn áfangans gefur til kynna, er áhersla á útivist af ýmsum toga. Full ástæða hefur verið til þess að njóta vel þeirra hlýju haustdaga sem veðurguðirnir hafa boðið upp á að undanförnu.
Í útivistaráfanganum er m.a. farið í lengri og styttri gönguferðir í næsta nágrenni Akureyrar. Í síðustu viku lá leiðin upp að Skólavörðu í Vaðlaheiði og þá voru þessar myndir teknar.
Umsjón með áfanganum, sem um tuttugu nemendur eru skráðir í að þessu sinni, hafa Ólafur H. Björnsson og María Albína Tryggvadóttir.
Það sem af er skólaárinu hefur t.d. verið gengið frá VMA og inn í Kjarnaskóg, úr Kjarnaskógi og upp í skátaskálann Gamla og einnig hefur Stífluhringurinn svokallaði verið genginn en þá er farið frá bílastæðinu á Glerárdal og gengið sunnan og austan Glerár inn að virkjun á Glerárdal og þar yfir og síðan niður með Glerár vestan og norðan árinnar.