Fara í efni

Gefandi og gott nám

Soffía Karen Erlendsd. (t.v.) og Vigdís Aradóttir.
Soffía Karen Erlendsd. (t.v.) og Vigdís Aradóttir.

Aldur er afstæður þegar kemur að því að setjast á skólabekk og víkka út sjóndeildarhringinn. Það er gömul saga og ný. Þær Vigdís Aradóttir, sem er 33 ára, og Soffía Karen Erlendsdóttir, sem er 19 ára gömul, eru saman í sjúkraliðanámi VMA og báðar eru þær langt komnar með námið. Hjá báðum var ekkert endilega í kortunum að fara þessa leið í námi en eins og gengur taka hlutirnir breytingum og sjúkraliðanámið var niðurstaðan. Þær sjá ekki eftir því.

Vigdís rifjar upp að hún hafi farið í grunndeild matvæla í VMA að loknum grunnskóla og lauk henni. Næst lá leiðin í fatasaum í VMA og svo fór hún á almenna braut. Vigdís segist á þessum tíma hafa verið mjög óráðin í því hvað hún ætlaði að taka sér fyrir hendur, hún hafi í raun verið pínulítið týnd.

Hlé varð á skólagöngu, Vigdís fór til útlanda og var Au pair í nokkra mánuði, hún stundaði íshokkí af kappi og var í landsliðinu í nokkur ár en síðan kviknaði áhuginn á sjúkraliðanáminu eftir að Vigdís fékk tækifæri til þess að vinna á öldrunarstofnunum og með fötluðum. Í umönnun segist hún hafa fundið sína fjöl.

Svo skemmtilega vill til að Soffía Karen fór líka fyrst í grunndeild matvæla í VMA og lauk henni. Hún segir að í kringum sig séu margir sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar og hún hafi verið ákveðin í því að fara einhverja allt aðra leið í námi. Soffía var eina önn skiptinemi á Ítalíu og fór síðan á fjölgreinabraut í VMA. Það leiddi hana smám saman í sjúkraliðann – og þá varð ekki aftur snúið. Soffía horfir til þess að ljúka náminu og taka einnig stúdentspróf.

„Þetta er áhugavert, skemmtilegt og krefjandi nám sem kemur inn á svo fjölmargt. Það hefur margt komið mér skemmtilega á óvart í náminu, því miður vita alltof margir alltof lítið um þetta nám,“ segir Vigdís og Soffía bætir við að það taki til fjölmargra grunnþátta í starfi sjúkraliðans og sé í raun góður grunnur fyrir svo margt í lífinu.

Mikilvægur hluti sjúkraliðanámsins er verklegur – bæði á öldrunarstofnunum og sjúkrastofnunum. Soffía var í þrjár vikur í verknámi í Randers í Danmörku skömmu fyrir Covid faraldurinn, í janúar 2020. Hún segir þann tíma hafa verið mjög gefandi. Síðastliðið sumar starfaði hún á hjartadeild Landspítalans og segir þann tíma hafa verið töluvert stressandi, í undirmeðvitundinni hafi alltaf verið ákveðinn ótti um að bera Covid smit inn á deildina. Í janúar sl. var Soffía í starfsnámi á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri og segir þann tíma hafa verið mjög gefandi. Í framhaldinu bauðst henni sumarvinna á geðdeildinni.

Vigdís hefur starfað á Lögmannshlíð á Akureyri og segist kunna því vel að vinna með öldruðum. Í janúar sl. var hún í starfsnámi á fæðingadeild SAk og í sumar vinnur hún á skurðdeild SAk.

En hvert liggur leiðin eftir sjúkraliðanámið? Soffía segist hafa áhuga á að fara í iðjuþjálfun í Háskólanum á Akureyri og Vigdís tekur undir að það nám sé áhugavert. „En ég hef verið að velta fyrir mér tveggja ára diplómanámi í HA fyrir starfandi sjúkraliða. Ég geri ráð fyrir að skoða þann kost nánar,“ segir Vigdís.