Fara í efni

Gaman saman í Gryfjunni

Lærdómskvöld í Gryfjunni sl. fimmtudagskvöld.
Lærdómskvöld í Gryfjunni sl. fimmtudagskvöld.

Þó svo að kóvid sé ekki alveg úr sögunni eru þó hjól samfélagsins tekin að snúast á nokkuð eðlilegan hátt. Samkomur nemenda hafa auðvitað verið í lágmarki og þeir nemendur sem t.d. eru að ljúka námi núna í vor af þriggja ára stúdentsprófsbrautt hafa í raun upplifað aðeins eina kóvidfría önn, þ.e. haustönn 2019.

Eitt þeirra félaga í VMA sem hefur ekki starfað með eðlilegum hætti undanfarin ár vegna faraldursins er Mímir – félag nemenda á félags- og hugvísindabraut. Sigríður Láretta Þorgilsdóttir, nemandi á brautinni, fékk þá hugmynd að við svo búið mætti ekki standa og úr varð að boðað var til lærdómskvölds eða „Studdykvölds“ í Gryfjunni sl. fimmtudagskvöld frá kl. 20 til 23 þar sem komu nokkrir nemendur af félags- og hugvísindabraut og lærðu saman og nutu veitinga. Úr varð skemmtilegt og gefandi kvöld enda er maður manns gaman. Þetta ætla nemendur að endurtaka nk. fimmtudagskvöld, 5. maí, í Gryfjunni kl. 20 og hvetja því sem flesta að mæta, jafnt af félags- og hugvísindabraut sem öðrum brautum. Í mörg horn er að líta hjá nemendum þessa síðustu daga vorannar en síðasti kennsludagur er annar föstudagur, 13. maí.

Sigríður Láretta er á lokasprettinum í námi sínu í VMA, því hún útskrifast sem stúdent af félags- og hugvísindabraut þann 25. maí nk. Eitt af því sem hún er að vinna að þessa síðustu daga er lokaverkefni þar sem hún segist beina sjónum að reiðinni og hvernig fólk fái útrás fyrir hana.

En hvað tekur við að loknu stúdentsprófinu í VMA? Sigríður er fljót til svars: „Ég ætla í sálfræði í HA og það hefur í raun legið fyrir síðan ég var í grunnskóla. Ég hef lengi haft áhuga á sálfræði og af hverju við erum öll eins og við erum,“ segir hún.

Auk þess að hafa í mörg horn að líta á lokaspretti námsins er Sigríður ásamt fleirum á fullu þessa dagana við að skipuleggja menningarferð nemenda á félags- og hugvísindabraut austur í Fnjóskadal, Reykjadal og Mývatnssveit nk. miðvikudag. Farið verður í húsdýragarðinn Daladýrð í Fnjóskadal, síðan liggur leiðin í Jarðböðin í Mývatnssveit og punktinn yfir i-ið er ætlunin að setja með pizzahlaðborði í Dalakofanum á Laugum í bakaleiðinni. Það stefnir í ágætis mætingu en þeir sem hafa ekki skráð sig ættu að gera það sem fyrst með því til dæmis að senda tölvupóst á Sigríði Lárettu, vma501452@vma.is.