Gaman í íslensku á sérnámsbraut
Hver skólavika byrjar heldur betur skemmtilega á sérnámsbraut skólans. Hluti nemenda á brautinni fer að morgni mánudags - og aftur að morgni miðvikudags - í íslenskutíma til Sigrúnar Fanneyjar Sigmarsdóttur og Margrétar B. Tómasdóttur og glímir við hin ýmsu verkefni.
Eins og vera ber hafa verkefni annarinnar verið fjölbreytt en þema annarinnar hafa verið fjölmiðlar frá ýmsum hliðum. Fréttir hafa verið skoðaðar í vefmiðlum, bækur skoðaðar á bókasafninu o.fl. Hæst ber þó gerð myndbands þar sem nemendur lögðu í sameiningu hönd á plóg. Myndbandið var gert í anda sjónvarpsþáttanna vinsælu Með okkar augum og var víða leitað fanga í efnisöflun. Nemendur fengu skólafélaga sína úr öðrum skólastofum í heimsókn og spurðu þá spjörunum úr, matarhornið er á sínum stað í myndbandinu, rétt eins og í Með okkar augum, stærst var einkaviðtal nemendanna við einn af okkar fremstu landsliðsmönnum í körfubolta, Tryggva Snæ Hlinason. Hann féllst fúslega á að sitja fyrir svörum í myndbandinu enda er einn nemendanna í hópnum bróðir hans, Gísli Berg Hlinason, og einnig eru taugar Tryggva til VMA sterkar og hlýjar því þar nam hann rafvirkjun og lauk stúdentsprófi áður en hann skellti sér í atvinnumennskuna í körfubolta. Tryggvi Snær hefur verið atvinnumaður á Spáni frá 2017/2018, nú hjá stórliðinu Bilbao Basket á Norður-Spáni. Margt skemmtilegt og áhugavert kemur fram í viðtalinu við Tryggva Snæ, m.a. að það skemmtilegasta sem hann hafi gert í VMA hafi verið að grilla í kennurunum - sem sagt að gera smá at í þeim.
Í dag var myndbandið frumsýnt (og boðið upp á karamellur) og voru frumsýningargestir aðrir nemendur í íslenskuáföngum á sérnámsbraut.
Eitt og annað hefur verið nokkur fastur liður í þessum íslenskutímum hjá Sigrúnu Fanneyju og Margréti í vetur, t.d. að skoða veður og færð og ekki er síður mikilvægt að hafa matseðil vikunnar í mötuneytinu á hreinu. Og þegar tækifæri hefur gefist til, inn á milli atriða, hefur m.a. verið horft á framangreinda þætti úr þáttaröðinni Með okkar augum.
Hér eru nokkrar myndir af sérnámsbrautarnemunum í íslenskutíma.