Fara í efni

Gaman í Gryfjunni í dag í tilefni af Alþjóðadegi kennara

Verðlaunakennarar með glæsilegar kórónur.
Verðlaunakennarar með glæsilegar kórónur.

Það var skemmtileg stemning í Gryfjunni í dag þegar nemendur og kennarar brugðu á leik í tilefni af Alþjóðlegum degi kennara sem verður 5. október, nk. laugardag. Nemendafélagið Þórduna stóð fyrir skipulagningu þessa vel heppnaða viðburðar. 

Til að byrja með fengu nokkrir kennarar úthlutað kórónum, samkvæmt niðurstöðu úr könnun meðal nemenda um skemmtilegasta kennarann, fyndnasta kennarann, rólegasta kennarann o.fl. Því næst var efnt til spurningaleiks milli liðs kennara og Gettu betur liðs nemenda. Keppnin var hnífjöfn og lyktaði með jafntefli.

Þá var komið að Kahoot netspurningaleik um kennara - þar sem um 90 þátttakendur voru spurðir um ýmislegt varðandi kennara við VMA. Benedikt Barðason skólameistari stóð uppi sem sigurvegari, svaraði öllum spurningunum fjórtán rétt. Skólameistari þekkir greinilega vel sitt fólk.

Lokaatriðið var tvær umferðir í eggjahlaupi milli fulltrúa kennara og nemenda. Þar urðu lyktir þær að fyrri umferðina vann fulltrúi nemenda en fulltrúi kennara þá síðari.