Fara í efni

Gaman á grunnskólakynningu

Grunnskólanemendur afla upplýsinga í VMA í gær.
Grunnskólanemendur afla upplýsinga í VMA í gær.

Það var margt um manninn á göngum skólans í gær og fyrradag en þá var efnt til grunnskólakynningar VMA fyrir nemendur í 9. bekk grunnskóla. Þetta var í annað skipti í vetur sem grunnskólakynning er í skólanum en fyrir áramót var kynning fyrir 10. bekkinga. Framvegis verður VMA með kynningar fyrir nemendur í 9. bekk grunnskóla.
Í fyrradag komu í heimsókn í VMA nemendur grunnskóla á Akureyri að Brekkuskóla undanskildum en nemendur hans sóttu skólann síðan heim í gær auk nemenda í grunnskólum utan Akureyrar – úr Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu. Svava Hrönn Magnúsdóttir og Árný Þóra Ármannsdóttir námsráðgjafar, sem hafa haft veg og vanda að undirbúningi og skipulagningu grunnskólakynninganna, gáfu krökkunum upplýsingar og það gerðu einnig skólastjórnendur og kennarar, auk að sjálfsögðu nemenda skólans sem lögðu sín lóð á vogarskálarnar í kynningu á sínum námsbrautum. Einnig kynntu stjórnarmenn í Þórdunu nemendafélagi félagslífið í skólanum.
Síðdegis í gær var síðan kynningarfundur í VMA fyrir nemendur 9. og 10. bekkjar grunnskóla og foreldra/forráðamenn þeirra.

Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar á grunnskólakynningunni í VMA í gær.