Gamall karl breyttist í trúð

„Listnám var það eina sem kom í raun til greina að loknum grunnskóla. Ég hef alltaf verið að teikna og á í fórum mínum fullt af skissubókum frá því ég var lítil. Það var því eðlilegt að velja þessa leið,“ segir Liv Sólrún Bastiansdóttir Stange.
Hún fæddist í Neskaupstað en fjölskyldan flutti síðan til Reykjavíkur og bjó þar til 2017. Þá lá leiðin norður í Þríhyrning í Hörgárdal, þar sem fjölskyldan býr enn. Liv var því í Þelamerkurskóla í efstu bekkjum grunnskóla.
„Ég byrjaði á listnáms- og hönnunarbraut í VMA haustið 2022 og stefnan er að útskrifast eftir ár, vorið 2026. Ég ætla því að taka námið á fjórum árum. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt nám og meira en uppfyllt væntingar. Upp á listnámsbraut erum við eins og lítil fjölskylda - kennarar og nemendur. Við nemendurnir spjöllum mikið saman um það sem við erum að gera, berum saman bækur okkar og fáum innblástur hvert frá öðru. Í myndlistinni finnst mér hugmyndavinnan skemmtilegust, að vinna með hugmyndir og sjá í hvaða átt þær fara. Það geta orðið svo miklar breytingar á verkinu frá því að fyrsta hugmyndin fæðist og þar til verkið er tilbúið. Gott dæmi um þetta er einmitt akrílmyndin sem ég gerði og hangir núna uppi við austurinngang skólans. Upphaflega ætlaði ég að vinna mynd af gömlum karli en síðan þróaðist þessi gamli karl í að verða trúður. Þegar upp er staðið finnst mér þessi útfærsla koma betur út. Bakgrunnurinn varð síðan smám saman til,“ segir Liv.
Sem fyrr segir ætlar Liv að ljúka stúdentsprófi að ári liðnu en hvað þá tekur við er óráðið. Myndlistarnám í Listaháskólanum eða erlendis kemur vissulega til greina – eitthvað nýtt og skemmtilegt.
„Mér finnst mjög gaman að fá hugmyndir og framkvæma þær í listsköpun hvers konar. Ekki bara í málverki, ljósmyndun heillar mig líka. Það er mjög skemmtilegt að ná góðum myndum af fólki, til dæmis á tónleikum, og fallegri náttúru.“
En hvað gerir Liv helst utan skólans? Þá skiptir hún alveg um gír og gerist yfirmaður eða vaktstjóri í Hagkaup þrjú kvöld í viku og aðra hverja helgi. Í Hagkaup byrjaði hún fyrir um þremur árum, þá í sérvörunni, en hefur smám saman fengið meiri ábyrgð sem hún segir fyrst og fremst skemmtileg, stundum geti þó verið svolítið stressandi að hafa ábyrgðina í fanginu en hún hafi metnað til þess að skila góðu verki.