Fara í efni

Fyrsta VMA-ballið í um tvö ár

Emmsjé Gauti kemur fram á ballinu í kvöld.
Emmsjé Gauti kemur fram á ballinu í kvöld.

Það verður ekki annað sagt en að í kvöld, fimmtudagskvöldið 28. september, verði ákveðin tímamót þegar Þórduna – nemendafélag VMA stendur fyrir fyrsta ballinu frá því að covid-faraldurinn skall á í mars 2020. Þórduna kallar ballið grímu (laust) ball og þar er vísað til þess að ekki er gerð krafa um að ballgestir beri andlitsgrímur. Hins vegar ber þeim að framvísa ekki eldra en 48 klukkustunda neikvæðu covid-hraðprófi við innganginn. Slíkt próf er hægt að nálgast með því að skrá sig í gegnum Covid.is

Á ballinu í kvöld, sem verður í M-01 og stendur frá kl. 21:00 til miðnættis, sjá Emmsjé Gauti og DJ Elmar um tónlistina.

Anna Birta Þórðardóttir, varaformaður Þórdunu, segir mjög ánægjulegt að nú sé loksins mögulegt að blása til skólaballs og það sé til marks um að félagslíf framhaldsskólanema sé hægt og bítandi að komast í eðlilegra horf en nemendur hafi upplifað í vel á annað ár.

Nemendur VMA eru hvattir til þess að drífa sig á ballið og hafa þeir fengið sendar upplýsingar um hvernig skuli bera sig að við að skrá sig í og fara svo í hraðpróf. Það skal undirstrikað að þetta er ekki covid-skyndipróf sem hægt er að kaupa út í búð, heldur er þetta hraðpróf sem heilsugæslan tekur, rétt eins og PCR-prófin svokölluðu. En munurinn er sá að ekki þarf að bíða eins lengi eftir niðurstöðum prófsins.

Í dag er opið í hraðprófin milli kl. 11 og 14. Þeir sem ætla á ballið í kvöld þurfa því að skrá sig og drífa sig í hraðprófið eigi síðar en kl. 14 í dag.