Fara í efni

Fyrri hluti Íslandsmóts í málmsuðu í VMA

Þátttakendur í keppninni í VMA. Mynd: HÓ
Þátttakendur í keppninni í VMA. Mynd: HÓ

Fyrri hluti Íslandsmótsins í málmsuðu var haldinn sl. föstudag í húsnæði málmiðnaðarbrautar VMA. Síðari hluti keppninnar verður haldinn að tæpum hálfum mánuði liðnum, 21. október, hjá Iðunni Fræðslusetri í Reykjavík. Níu suðumenn frá fjórum fyrirtækjum mættu til leiks í VMA og stóðu sig með mikilli prýði. Þar af hafa átta þátttakendur í keppninni farið í gegnum nám á málmiðnaðarbraut VMA. Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnaðarbrautar VMA, var á staðnum og tók þessar myndir.

Stykkin sem þátttakendur skiluðu af sér í keppninni í voru metin út frá sjónskoðun en þau verða síðan röntgenskoðuð í Reykjavík samhliða síðari hluta mótsins 21. október nk.

Keppt var í fjórum greinum – pinnasuðu, MAG-suðu, logsuðu og TIG-suðu. Úrslit urðu sem hér segir: 

Pinnasuða:

 1. Andrés Sandö (Útrás)
 2. Anton Ólafsson (Norðurstál)
 3. Arnar Freyr Gunnarsson (Norðurstál)

 

MAG-suða

 1. Arnar Freyr Gunnarsson (Norðurstál)
 2. Andrés Sandö (Útrás)
 3. Vignir Logi Ármannsson (Vélsmiðjan Hamar)

 

Logsuða

 1. Arnar Freyr Gunnarsson (Norðurstál)
 2. Anton Ólafsson (Norðurstál)
 3. Vignir Logi Ármannsson (Vélsmiðjan Hamar)

 

TIG-suða

 1. Vignir Logi Ármannsson (Vélsmiðjan Hamar)
 2. Arnar Freyr Gunnarsson (Norðurstál)
 3. Jóhann Sigurðsson (Slippurinn Akureyri)

Í keppninni í TIG-suðu var hörð barátta og hlutu þrír efstu 200 stig – sem er það hæsta sem hægt er að fá. Til þess að skera úr um röð efstu manna var horft til þess hversu lengi þátttakendur voru að sjóða ryðfríu rörin.

Ef horft var til heildarstiga þátttakenda skoraði Arnar Freyr Gunnarsson hæst. Ferrozink gaf verðlaun – ryðfrían pela – til þess þátttakanda sem sigraði TIG-suðuna. Þau hlaut Vignir Logi Ármannsson.

Félag málmiðnaðarmanna Akureyri gaf bikar til liðakeppni. Hann hlaut Norðurstál og þeir Anton Ólafsson og Arnar Freyr Gunnarsson starfsmenn Norðurstáls fengu einnig eignabikara.

Kristján Þ. Kristinsson, kennari við málmiðnaðarbraut VMA, segir að keppnin hafi í alla staði verið skemmtileg og almenn ánægja hafi ríkt með hana. Hann vill koma á framfæri kærum þökkum til fyrirtækjanna Ferrozink, Slippsins Akureyri og Straumrásar fyrir stuðning við keppnina með því að gefa það efni sem til þurfti til keppninnar. Einnig vildi hann færa Ferrozink og Félagi járniðnaðarmanna Akureyri þakkir fyrir að gefa verðlaun til keppninnar.