Fara í efni

Fyrirlestur um karlmennskuna í VMA í kvöld

Þorsteinn V. Einarsson.
Þorsteinn V. Einarsson.

Í kvöld, þriðjudaginn 5. nóvember, kl. 20:00-21:00 heldur Þorsteinn V. Einarsson fyrirlestur í VMA um karlmennskuna og áhrif hennar á samfélagið. Fyrirlesturinn er haldinn í samvinnu VMA, MA og Rósenborgar, allir eru velkomnir og er aðgangur ókeypis. Nemendur og foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að mæta. 

Þorsteinn hefur haldið fjölmarga fyrirlestra og skrifað greinar um karlmennskuna og hann heldur úti fb-síðunni Karlmennskan. Þar skrifaði hann m.a. fyrir nokkrum dögum:

„Við erum öll að glíma við eitthvað. Það er hluti af því að vera manneskja. Ósanngjarnar og óraunhæfar og oft kallaðar úreltar hugmyndir um hvað á að einkenna alvöru mann kann að vera hindrun fyrir marga menn til að viðurkenna vanda sinn, segja frá því og sækja sér hjálpar. Eins og það, að gangast við vanda sínum og vanmætti, sé merki um skort á karlmennsku.

Hættum að burðast einir með vandann okkar. Látum ekki úrelt merkjakerfi valda okkur óþarfa vanlíðan og þjáningum. Tölum saman og segjum frá því sem við upplifum, glímum við eða eigum erfitt með.“