Fara í efni

Fyrirlestur um Ferska vinda

Fyrirlesari dagsins, Mireya Samper.
Fyrirlesari dagsins, Mireya Samper.

Á haustönn var efnt til þriðjudagsfyrirlestra í Listasafninu á Akureyri í samvinnu Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Nú verður þráðurinn tekinn upp og verða þriðjudagsfyrirlestrar á dagskránni fram eftir vetri.

Fyrsti fyrirlestur vorannar verður í dag, 28. janúar, kl. 17:00-17:40. Fyrirlesari dagsins er Mireya Samper, myndlistarmaður og framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi alþjóðlegu listahátíðarinnar Ferskra vinda sem hún stofnaði fyrir áratug.

Í fyrirlestrinum fjallar Mireya um upphaf hátíðarinnar og þróun hennar á síðustu 10 árum, en einnig mun hún fjalla um einstaka hátíðir og nokkra af þeim 200 myndlistarmönnum sem hafa tekið þátt í hátíðinni.  

Mireya Samper útskrifaðist frá Ecole d’Art de Luminy í Marseille í Frakklandi 1993. Hún stundaði einnig nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987-90 og Academia di Bologna á Ítalíu 1992. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og erlendis auk þess að taka þátt í fjölmörgum samsýningum.