Fara í efni

Fundur SSNE og framhaldsskólanna á NA-svæði

Rafrænn fundur SSNE og SAMNOR
Rafrænn fundur SSNE og SAMNOR

Framhaldsskólarnir á Norðurlandi eystra (SAMNOR) hafa verið í virku samstarfi frá árinu 2015. Í dag funduðu skólameistarar með stjórn SSNE, sem eru Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Á fundinum voru rædd ýmis mál er varða sveitarfélögin á svæðinu og framhaldsskólana sem þar eru. Fulltrúar SSNE fengu kynningu á samstarfi skólanna, rætt var um sameiginleg verkefni sem þeir hafa unnið að og um aðkomu SSNE að þróun náms á svæðinu, t.d. hvað varðar list- og tækninám. Á fundinum var ákveðið að styrkja samstarf skólanna við SSNE, m.a. með því að skólarnir rýni Sóknaráætlun svæðisins og komi með tillögur inn í áætlunina þar sem það á við. Allir voru sammála um mikilvægi þess að hafa fundi sem þennan einu sinni til tvisvar á ári. Fundurinn fór fram með rafrænum hætti og var meðfylgjandi mynd tekin á honum. 

Þess má geta að skólarnir fimm eru samtals með rúmlega 2000 nemendur og við þá starfa rúmlega 190 kennarar og 90 aðrir starfsmenn. Fjárlög skólanna eru upp á 3650 milljónir króna og á svæðinu eru þrír skólar sem bjóða upp á heimavist. Mikilvægi skólanna fyrir allt svæðið er ótvírætt, hvort sem horft er til menntunar ungs fólks, atvinnutækifæra á svæðinu eða byggðaþróunar.