Fara í efni

Fundað í WorkQual í Harderwijk

VMA-fólk og aðrir þátttakendur í Harderwijk.
VMA-fólk og aðrir þátttakendur í Harderwijk.

Á síðasta ári hófst alþjóðlega þróunarverkefnið WorkQual - Workmentoring within a Quality Management System, sem Verkmenntaskólinn á Akureyri stýrir. WorkQual, sem er hluti af Erasmus plus áætlun Evrópusambandsins, felur í sér að taka saman og staðla það nauðsynlegasta sem þarf að gera og hafa tilbúið þegar skólar senda nemendur í vinnustaðanám.  Slíkt vinnustaðanám og heimsóknir eru þekktar í VMA því til dæmis sendir skólinn sjúkraliðanema í vinnustaðanám á sjúkrastofnanir bæði hér á landi og í öðrum löndum. Aðrar námsbrautir senda nemendur í stuttan tíma á vinnustaði, t.d. matvælabraut, og þá fara nemendur í iðngreinum á lengri námssamninga.

Með VMA í þessu verkefni eru skólar og ráðgjafar í Noregi, Finnlandi, Hollandi, Frakklandi og Englandi.  Fyrsti fundur í verkefninu var í VMA í nóvember á síðasta ári, annar fundurinn var í Hereford á Englandi í mars á þessu ári og sá þriðji var í síðustu viku í Harderwijk í Hollandi. Fjórði fundur í verkefninu verður í apríl á næsta ári í Nantes í Frakklandi og lokafundurinn verður í Þrándheimi í Noregi í september 2016.

Fjórir fulltrúar VMA sátu áðurnefndan fund í WorkQual-verkefninu í Hollandi í síðustu viku: Jóhannes Árnason, líf- og efnafræðikennari og verkefnastjóri erlendra samskipta í VMA, Ari Hallgrímsson, kennari á matvælabraut, Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir, kennari í samfélagsgreinum og Guðmundur Ingi Geirsson, kennari í rafiðngreinum.

„Í flestum tilfellum er um að ræða þríhliða samkomulag um vinnustaðanám; milli skóla, vinnustaðar og nemanda. Það verkefni sem við erum núna að vinna að ásamt samstarfaðilum okkar gengur út á að finna og samræma leiðir til þess að halda skipulega utanum þessi samskipti og í því felst meðal annars að byggja upp ákveðinn gagnabanka um vinnustaðanámið þannig að allar upplýsingar séu vel aðgengilegar. Í verkefninu byggjum við ofan á þá vinnu sem þegar hefur verið unnin í fyrri þróunarverkefnum á þessu sviði. Meðal þess sem við höfum unnið út frá er könnun sem við gerðum hjá fjölmörgum fyrirtækjum í þátttökulöndunum. Út frá þeim gagnlegu upplýsingum sem við fengum í þessari könnun höfum við meðal annars unnið og ég vænti þess að við ljúkum úrvinnslunni á fundinum í Nantes í apríl þannig að við verðum tilbúin að kynna niðurstöðurnar á fundinum í Þrándheimi að ári,“ segir Jóhannes Árnason.