Fara í efni

Fullur tilhlökkunar

Steinar Bragi Laxdal, nýkjörinn formaður Þórdunu.
Steinar Bragi Laxdal, nýkjörinn formaður Þórdunu.

Í dag, þriðjudaginn 3. maí, kl. 11:20 boðar Þórduna – nemendafélag til aðalfundar í M-01, þar sem m.a. fara fram stjórnarskipti í félaginu. Allir félagar Þórdunu hafa rétt til setu á fundinum og þeir einir hafa þar atkvæðisrétt. Steinar Bragi Laxdal Steinarsson, nýkjörinn formaður Þórdunu, segir tilhlökkun í stjórn félagsins að takast á við að stýra félagslífinu í skólanum á næsta skólaári eftir þá ládeyðu sem kóvidfaraldurinn hafi markað síðustu tvö ár.

Í síðustu viku gengu nemendur skólans að kjörborðinu og kusu sér nýja stjórn nemendafélagsins og stjórnendur Leikfélags VMA á næsta skólaári. Niðurstaðan varð sem hér segir:

Stjórn Þórdunu:

Formaður
Steinar Bragi Laxdal

Varaformaður
Sara Dögg Sigmundsdóttir

Skemmtanastjóri
Mikael Jens Halldórsson

Eignastjóri
Sveinn Sigurbjarnarson

Kynningarfulltrúi
Sandra Hafsteinsdóttir

Meðstjórnandi
Gunnlaugur Geir Gestsson

Ritari
Hafdís Inga Kristjánsdóttir

Gjaldkeri
Halldór Birgir Eydal

 

Stjórnendur Leikfélag VMA:

Formaður Leikfélags VMA
Örn Smári Jónsson

Varaformaður Leikfélags VMA
Aþena Marey Ingimarsdóttir

Markaðsfulltrúi Leikfélags VMA
Emma Ósk Baldursdóttir

Steinar Bragi, nýkjörinn formaður Þórdunu, segir að eftir erfiða tvo vetur í félagslífinu í skólanum vegna takmarkana af völdum kóvid sé hugur í fólki að bretta upp ermar. Hann segir ekki liggja fyrir mótaðar línur í smáatriðum hvernig félagslífinu verði háttað en ljóst sé að stórir fastir liðir verði á sínum stað og síðan vonast hann til þess að margir minni viðburðir verði í boði á léttum nótum sem ekki muni af veita eftir erfiða tíma.

En af hverju ákvað Steinar Bragi að gefa kost á sér í formensku í Þórdunu? Hann segist hafa löngum til þess að láta gott af sér leiða í þágu nemenda og raunar hafi það verið þannig að hugmyndin um framboð hafi kviknað í ferð sem hópur nemenda skólans fór til Harderwijk í Hollands í mars sl. til þess að taka þar þátt í Erasmus + verkefninu Ready for the World. Í þeirri ferð hafi skapast mikil samstaða nokkurra nemenda í hópnum sem ákváðu að láta slag standa og bjóða sig fram til starfa fyrir nemendafélagið á næsta skólaári – og það gekk eftir. „Við ákváðum svo endanlega á árshátíð VMA fyrir páska að gefa kost á okkur til starfa,“ segir Steinar Bragi og bætir við að hann sé fullur tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni.

Hann tók þátt í uppfærslu Leikfélags VMA á Grís í fyrra og horfði til þess að vinna að ýmsum verkefnum á bak við tjöldin en það fór þó á annan veg því hann var einn leikaranna í sýningunni, sem hann segir hafa verið bráðskemmtilega reynslu.

Steinar hóf nám á starfsbraut 2019 en hefur í vetur stundað nám á viðskipta- og hagfræðibraut, sem hann segist vera mjög ánægður með. Í þessu námi finni hann sig vel – og ef vel gangi hafi hann áhuga á síðar meir að fara áfram í nám í viðskiptafræði. Hann hefur reyndar fengið smá innsýn í viðskipti í gegnum vinnu sína í Nettó á Glerártorgi undanfarin fjögur ár, þar sem hann segist hafa verið vaktstjóri og búðastjóri en í því felst m.a. skipulag vakta, að panta vörur og margt fleira.

Sem fyrr segir tekur Steinar Bragi og hans fólk með formlegum hætti við stjórnartaumunum í Þórdunu og Leikfélagi VMA á aðalfundi Þórdunu í dag kl. 11:20. Nemendur eru hvattir til að mæta og minnt er á að í lok fundar verður boðið upp á veitingar fyrir fundargesti.