Fara í efni

Frumsýning á Litlu hryllingsbúðinni á föstudagskvöldið

Úr Litlu hryllingsbúðinni. Myndir: Egill Bjarni
Úr Litlu hryllingsbúðinni. Myndir: Egill Bjarni

Næstkomandi föstudagskvöld, 21. október, kl. 20 frumsýnir Leikfélag VMA í Samkomuhúsinu á Akureyri leikritið Litlu hryllingsbúðina í leikstjórn Birnu Pétursdóttur. Um tónlistina í sýningunni sér Kristján Edelstein en um raddþjálfun sjá Hera Björk Þorvaldsdóttir og Friðrik Ómar Hjörleifsson. Ellefu leikarar koma fram í sýningunni en í það heila koma um fjörutíu manns að sýningunni á einn eða annan hátt. Kristján Blær Sigurðsson, formaður Þórdunu – nemendafélags VMA, segir að hér sé um að ræða stærstu uppfærslu sem Leikfélag VMA hafi ráðist í og í fyrsta skipti sem félagið setur upp sýningu í Samkomuhúsinu á Akureyri. Því marki sýningin vissulega nokkur tímamót hjá Leikfélagi VMA.

Söngleikurinn Litla hryllingsbúðin er eftir Alan Menken (tónlist) og Howard Ashman (texti) og byggður á samnefndri kvikmynd frá árinu 1960. Mörg þekkt lög eru í sýningunni, t.d. Snögglega BaldurÞú verður tannlæknir og Gemmér.  

Litla hryllingsbúðin segir frá munaðarleysingjanum Baldri sem lifir frekar óspennandi lífi. Hann vinnur í lítilli blómabúð í skuggahverfi borgarinnar, hjá Músnikk, sem tók Baldur í fóstur. Viðskiptin ganga fremur illa og blómabúðin er um það bil að leggja upp laupana. Í blómabúðinni vinnur einnig Auður, sæt ljóska sem Baldur er ástfanginn af. En hún á kærasta, leðurklæddan og ofbeldisfullan tannlækni, sem ferðast um á mótorhjóli og beitir Auði ofbeldi. Dag einn kaupir Baldur dularfulla plöntu, sem hann nefnir Auði II. Eftir því sem plantan vex og dafnar aukast viðskiptin stöðugt meira í blómabúðinni og Baldur verður sífellt vinsælli. Kvöld eitt uppgötvar hann að plantan getur talað og hún lofar honum frægð og frama, gulli og grænum skógi. En sá galli er á gjöf Njarðar að plantan nærist á mannablóði og vill helst fá ferskt mannakjöt að borða. Matarvenjur plöntunnar eiga eftir að hafa skelfilegar afleiðingar.

Hér á landi hefur Litla hryllingsbúðin verið sett upp þrisvar sinnum í atvinnuleikhúsum. Einnig hefur Hryllingsbúðin verið sýnd af áhugamannaleikhópum víða um landið, s.s. í grunn- og framhaldsskólum.

Fyrsti atvinnuleikhópurinn sem sýndi Litlu hryllingsbúðina á Íslandi var Hitt leikhúsið. Sýnt var í Gamla bíó  í Reykjavík og var frumsýnt í janúar 1985. Sýningum lauk í byrjun desember sama ár og voru þær þá orðnar fleiri en 100. Sýningargestir urðu u.þ.b. 50.000 og fram að þeim tíma hafði aðeins eitt leikhúsverk verið betur sótt á Íslandi: Fiðlarinn á þakinu. Í þessari sýningu léku m.a. Leifur Hauksson (útvarpsmaður á Rás 1) (Baldur), Edda Heiðrún Backmann (Auður) og Laddi (Ómar tannlæknir). Næst setti Leikfélag Reykjavíkur uppi Litlu hryllingsbúðina í Borgarleikhúsinu í júní 1999. Að þessu sinni var það Gísli Rúnar Jónsson sem þýddi og staðfærði verkið, en áfram var notast við söngtexta Megasar. Sýningar urðu samtals 66 og sýningargestir urðu 29.603. Þar fór Valur Freyr Einarsson með hlutverk Baldurs Snæs og Þórunn Lárusdóttir lék Auði. Stefán Karl Stefánsson fór með hlutverk tannlæknisins.

Þriðja íslenska atvinnuleiksýningin á Hryllingsbúðinni var sett upp af Leikfélagi Akureyrar, í samstarfi við Íslensku óperuna og var hún frumsýnd 24. mars 2006 í Samkomuhúsinu á Akureyri. Guðjón Davíð Karlsson fór með hlutverk Baldurs, Vigdís Hrefna Pálsdóttir lék Auði, og  Jóhannes Haukur Jóhannesson túlkaði tannlækninn. 

Sem fyrr segir verður frumsýning nk. föstudagskvöld og önnur sýning verður á laugardagskvöldið. Báðar hefjast þessar sýningar kl. 20. Þrjár sýningar verða síðan um aðra helgi, föstudagskvöldið 28. október kl. 20 og laugardagskvöldið 29. október verða tvær sýningar, kl. 19 og 22.

Verð aðgöngumiða er kr. 3.490. Miðasala er annars vegar á mak.is og hins vegar tix.is