Fara í efni

Frumsýning á Bugsý Malón í kvöld

Eitt af hópatriðum uppfærslunnar á Bugsý Malón.
Eitt af hópatriðum uppfærslunnar á Bugsý Malón.

Þá er frumsýningardagur runninn upp! Í kvöld klukkan 20:00 frumsýnir Leikfélag VMA söngleikinn Bugsý Malón í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Auk frumsýningarinnar eru áætlaðar þrjár sýningar á verkinu, nk. sunnudagskvöld, föstudagskvöldið 15. febrúar og sunnudagskvöldið 17. febrúar.

Leikhópurinn hefur unnið að uppfærslunni síðan í október og æfingatíminn því verið langur. En nú er komið að uppskerutímanum og aðstandendur sýningarinnar eru spenntir að sýna hana í Hofi. Hér má sjá myndir sem Egill Bjarni Friðjónsson tók á æfingu í Hofi í vikunni.

Arndís Eva Erlingsdóttir, sem fer með eitt af stærstu hlutverkum í sýningunni, Blousy, segir að því verði ekki á móti mælt að æfingatörnin að undanförnu hafi tekið á en fyrst og fremst hafi þetta verið skemmtileg og gefandi vinna. „Þetta hefur allt verið að smella hjá okkur síðustu dagana og það hefur verið gaman að sjá hvernig hlutirnir hafa verið að taka á sig mynd núna á lokasprettinum. Álagið hefur vissulega verið mikið og kvef og hálsbólga hefur herjað á okkur í vikunni, þegar síst skyldi, en við gefum okkur öll í þetta,“ segir Arndís sem er ekki óvön að standa á leiksviðinu, lék meðal annars í Ávaxtakörfunni í fyrra og hafði áður leikið hjá Leikfélagi Akureyrar. Og söngurinn er henni síður en svo framandi, nýverið sigraði hún í Sturtuhausnum – söngkeppni VMA 2019. „Dagarnir hafa verið ansi langir að undanförnu. Skólinn fyrri part dags og síðan æfingar framundir miðnætti. En það er ekki að ástæðulausu að maður fer í þetta aftur og aftur. Þetta er mikil og góð reynsla sem ég myndi ekki vilja sleppa,“ segir Arndís Eva.

Leikstjóri sýningarinnar er Gunnar Björn Guðmundsson, aðstoðarleikstjóri Jokka G. Birnudóttir, tónlistarvinnsla er í höndum Hauks Sindra Karlssonar, um raddþjálfun sér Þórhildur Örvarsdóttir, höfundar dansatriða eru Ívar Helgason og Þórgunnur Ása Kristinsdóttir, leikmyndagerð er í höndum Guðlaugs Sveins Hrafnssonar, um búninga sér Elísabeth Ása Eggerz,lýsingu hannaði Sigurður Bogi Ólafsson og hljóði stýrir Hákon Logi Árnason.

Leikarar í sýningunni, auk Arndísar Evu Erlingsdóttur, eru: Bergvin Þórir Bernharðsson, Þórdís Elín  Bjarkadóttir, Freysteinn Sverrisson, Særún Elma Jakobsdóttir, Hekla Sólbjörg Gunnarsdóttir, Vala Alvilde Berg, Karen Ósk Kristjánsdóttir, Þorkell Björn Ingvason, Níels Ómarsson, Bjarki Höjgaard, Andri Antonsson, Eyþór Daði Eyþórsson,  Katrín Helga Ómarsdóttir, María Björk Jónsdóttir, Magnea Lind Kolbrúnardóttir, Svanbjörg Anna Sveinsdóttir, Embla Björk Jónsdóttir, Guðrún Katrín Ólafsdóttir, Sigrún Helkla Sigmundsdóttir, Embla Sól Pálsdóttir, Anna Birta Þórðardóttir, Þórgunnur Ása Kristinsdóttir, Kolfinna Jóhannsdóttir, Aldís Inga Sigmundardóttir, Júlíus Elvar Ingason, Jónína Freyja Jónsdóttir, Helgi Freyr Gunnarsson, Ásgeir Örn Elísuson og Diana Snædís Matchett.

Fjölmargir aðrir koma að sýningunni á einn eða annan hátt, án efa er þetta ein af stærstu uppfærslum Leikfélags VMA til þessa.

Miðasala á sýningarnar fjórar eru á tix.is.