Fara í efni

Frumsýning á Bjart með köflum í kvöld

Atriði úr Bjart með köflum.
Atriði úr Bjart með köflum.

Í kvöld kl. 20:00 frumsýnir Leikfélag VMA í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit söngleikinn Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Péturs Guðjónssonar. Um fjörutíu manns koma að sýningunni - með því að leika, flytja tónlistana og vinna hin ótal mörgu störf að tjaldabaki.

Verkið gerist í kringum 1970 og inn í það er blandað  þekktum, vinsælum lögum frá þessum tíma. Verkið hefur verið æft þrotlaust undanfarnar vikur og nú er komið að uppskerutímanum. 

Vert er að benda á að aðeins eru áætlaðar sex sýningar á verkinu. Uppselt er á frumsýninguna í kvöld en næstu sýningar eru annað kvöld, föstudag, nk. laugardagskvöld og síðan þrjú kvöld í næstu viku - fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöld. Allar sýningarnar eru í Freyvangi og hefjast klukkan 20. 

Miðasala er í hljómdeild Eymundsson við Hafnarstræti og á vefnum Tix.is. Einnig er hægt að kaupa miða með því að hringja í síma 4611212 (símanúmer Þórdunu – nemendafélags VMA) milli kl. 17 og 19 og þá eru miðar á sýninguna seldir í Gryfjunni.