Fara í efni

Frumkvöðlar hanna og framleiða ruslaflokkunarkassa og gjafaöskjur

Þrír af fimm ruslaflokkunarkössunum.
Þrír af fimm ruslaflokkunarkössunum.

Nemendur í áfanganum frumkvöðlafræði hjá Katrínu Harðardóttur undirbúa nú þátttöku í Vörumessu ungra frumkvöðla í Smáralind í Kópavogi að röskri viku liðinni, laugardaginn 6. apríl nk. Mikil þátttaka er að þessu sinni í Vörumessunni og er hún í tvo daga, 5. og 6. apríl, nemendur VMA kynna sína framleiðslu seinni daginn.

Eins og vera ber í vinnu frumkvöðla var fyrsta skrefið að detta niður á réttu hugmyndina og útfæra hana síðan. Niðurstaða VMA-nemenda var að nýta þá tækni sem er til staðar innan veggja skólans og fara í samstarf við FabLab Akureyri, sem eins og kunnugt er hefur sína aðstöðu í rými í VMA. Eftir miklar bollaleggingar var ákveðið að hanna og framleiða annars vegar ruslakassa og hins vegar gjafaöskjur. Nemendum var skipt í tvo hópa og annaðist annar hópurinn undirbúning, hönnun og framleiðslu á ruslakössunum og hinn hópurinn einbeitti sér að gjafaöskjunum. Báðar vörurnar eru umhverfisvænar, úr MDF-plötum, hannaðar í FabLab og skornar þar út í leiserskurðarvélum. 

Nemendur framleiða ruslaflokkunarkassa undir vörumerkinu Bin Dán og eru fimm mismunandi myndir á þeim - Súlur, Hallgrímskirkja, hrafn, fífill og gleym mér ei. Kassarnir hafa verið boðnir til sölu í VMA og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. Einn kassi er seldur á 2000 kr., tveir á 3500 kr., þrír á 4.500 kr. og fjórir á 5500 kr. Nemendur segja að hugsa megi kassana til flokkunar í eldhúsi en ekkert síður undir skrifborðið í vinnurými eða í svefnherbergið. Hér má sjá kassana og nemendur sem að honum standa, ásamt Katrínu Harðardóttur kennara. Miðað við góð viðbrögð í VMA er ljóst að nemendur þurfa næstu daga að framleiða töluverðan fjölda af kössum til þess að taka með sér á Vörumessuna um aðra helgi í Smáralind.

Þrjár tegundir af gjafaöskjum eru framleiddar. Einn þeirra er með merki VMA og hefur skólinn þegar fest kaup á nokkrum slíkum. Á Vörumessunni í Smáralind verða hins vegar tvær aðrar tegundir gjafaaskja kynntar, annars vegar svokallað Night Life Box og hins vegar einskonar jurtabox og eru nemendur í samstarfi við snyrtivöruframleiðandann Purity Herbs á Akureyri um vörur í öskjurnar. Hér eru myndir af VMA-öskjunni og nemendunum fjórum sem hafa unnið að þessu verkefni.