Fara í efni

Framboðsfundur í Gryfjunni á morgun

Kosið verður til Alþingis 29. október nk.
Kosið verður til Alþingis 29. október nk.

Á morgun, fimmtudaginn 6. október, verður efnt til framboðsfundar í Gryfjunni, kl. 10:00. Öllum þeim níu framboðslistum sem hafa tilkynnt framboð í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 29. október nk. hefur verið boðið að koma til fundarins og kynna áherslur sínar og svara fyrirspurnum. Að undirbúningi fundarins hafa unnið kennararnir Þorsteinn Kruger og Valgerður Dögg Jónsdóttir í samráði við nemendur.

Eins og fram hefur komið verða svokallaðar skuggakosningar vegna komandi alþingiskosninga í bróðurparti framhaldsskóla landsins fimmtudaginn 13. október, að rúmri viku liðinni, og er megintilgangurinn með þeim að efla lýðræðisvitund ungs fólks og hvetja það til þess að taka þátt í alþingiskosningunum 29. október nk. en í síðustu alþingiskosningum fyrir þremur árum var mjög dræm kjörsókn í yngstu aldurshópunum. Þorsteinn Kruger og Valgerður Dögg Jónsdóttir, sem kenna einmitt saman áfangann „Mannréttindi og lýðræði“, segja að þau hafi talið fara vel á því að hafa framboðsfund í aðdraganda skuggakosninganna í næstu viku þannig að nemendur séu betur upplýstir um stefnu framboðslistanna í þessu kjördæmi.

Sem fyrr segir hefst framboðsfundurinn á morgun um kl. 10:00 – að loknum löngu frímínútum. Nemendur fara út í kennslustofur sínar samkvæmt stundaskrá eftir löngu frímínútur þar sem kennarar hitta þá. Kennarar koma síðan með sína nemendahópa í Gryfjuna á framboðsfundinn.

Við það er miðað að hver frambjóðandi fái 3 mínútur í framsögu og þegar allir frambjóðendur hafa lokið við sín ávörp gefst nemendum kostur á að bera fram fyrirspurnir til frambjóðenda. Gert er ráð fyrir að framboðsfundurinn taki sem næst einni klukkustund.

Sem fyrr segir má segja að framboðsfundurinn á morgun sé einskonar upptaktur að skuggakosningunum í næstu viku, sem verða, sem fyrr segir, í flestum framhaldsskólum landsins. Lagt er upp með að þær kosningar verði sem líkastar venjulegum kosningum með kjördeildum, innsigluðum kjörkössum, kjörstjórnum og yfirkjörstjórn. Fyrst og fremst er þetta til gamans gert en undirtónninn er sá að auka lýðræðishefð í skólunum og stuðla að aukinni kosningaþátttöku ungs fólks. Atkvæðum úr öllum framhaldsskólunum sem taka þátt í skuggakosningunum verður safnað saman í Reykjavík. Þar verður talning á einum stað og úrslitin verða síðan kynnt eftir að kjörstöðum verður lokað að kvöldi kjördags, 29. október nk.

Nánar verður fjallað um skuggakosningarnar hér á heimasíðunni í næstu viku.