Fara í efni

Framboðsfundur í gær - skuggakosningar á morgun

Frá framboðsfundinum í Gryfjunni í gær.
Frá framboðsfundinum í Gryfjunni í gær.

Svokallaðar skuggakosningar verða haldnar í VMA á morgun, fimmtudaginn 12. apríl, kl. 09:00 til 16:00. Kjörstaður verður á sviðinu í Gryfjunni og verður kosið milli framboða til bæjarstjórnar Akureyrar. Á sama tíma fara fram skuggakosningar í rúmlega 20 öðrum framhaldsskólum. Þetta verður í fyrsta skipti sem skuggakosningar eru haldnar á sveitarstjórnarstigi. Landssamband ungmennafélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema standa fyrir skuggakosningunum sem efnt er til undir #ÉgKýs.

Í aðdraganda kosninganna var efnt til kosningafundar í Gryfjunni í gær þar sem fulltrúar framboða á Akureyri sem hafa birt framboðslista sína fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í lok maí nk. kynntu stefnumál sín og svöruðu spurningum nemenda. Fulltrúar voru frá Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Vinstri hreyfingunnni grænu framboði, Samfylkingu, Pírötum og L-listanum. Fundarstjóri var Örn Smári Jónsson en tímaverðir Harpa Lís Þorvaldsdóttir og Elísabeth Ása Eggerz Heimisdóttir.

Samhliða skuggakosningum á morgun gefst nemendum kostur á að greiða atkvæði um lækkun kosningaaldurs í sextán ár en frumvarp þess efnis var lagt fram á Alþingi í vetur.

Þetta er í annað skipti sem skuggakosningar fara fram í VMA, áður voru þær fyrir alþingiskosningarnar 2016. Skuggakosningar virðast hafa skilað tilætluðum árangri, að auka kosningaþátttöku ungs fólks. Milli þingkosninganna 2016 og 2017 varð aukning í kjörsókn hjá yngstu kjósendunum, 18-19 ára, sem nam 9,5%.