Fara í efni

Frábært að koma hingað aftur

Sveinbjörg Jana Aðalsteinsdóttir.
Sveinbjörg Jana Aðalsteinsdóttir.

Á þessari önn hóf tólf nemenda hópur nám í hársnyrtiiðn í VMA og því eru nú þrír nemendahópar í þessari iðngrein – nemendur í hinum tveimur hópunum eru á fjórðu og sjöttu önn í náminu. Þessi þriðji námshópur kallaði á fleiri kennara og því hófu núna um áramót tveir nýir kennarar í hársnyrtiiðn störf við skólann; Sveinbjörg Jana Aðalsteinsdóttir og Aðalsteinn Sigurkarlsson, sem bæði eru meistarar í faginu.

Þegar kíkt var í kennslustund hjá þessum nýja nemendahópi í hársyrtiiðn var Jana að leiðbeina nemendum í permanenti og hárgreiðslu. Auk þess kennir hún nemendum á fjórðu önn klippingu og lit. Hún segir ekki hafa hugsað sig um þegar henni bauðst að taka að sér kennslu í VMA. Jana orðar það svo að hún sé komin heim, enda hafi hún lokið námi í hársnyrtiiðn frá skólanum, raunar verið í fyrsta námshópnum í hársnyrtiiðn sem VMA brautskráði árið 2012.

„Ég lauk kennsluréttindanámi frá Háskólanum á Akureyri og er nú að kenna í fyrsta skipti. Mér finnst frábært að koma hingað aftur og upplifunin af kennslunni er mjög góð. Ég viðurkenni að í fyrstu kennslustundinni ætlaði hjartað að springa af stressi  en það breyttist fljótt, mér líst ótrúlega vel á þetta,“ segir Jana. Auk grunnnámsins lauk hún meistararéttindum í hársnyrtiiðn í fjarnámi frá VMA árið 2013.

Að loknu grunnnáminu í VMA fyrir tíu árum var Jana í fæðingarorlofi en starfaði að því loknu um tíma í faginu. Raunar hafði hún starfað í Hárkompunni frá 2006 og meðan á náminu stóð. Síðustu árin hefur Jana verið sölumaður hjá Kjarnafæði en segist einnig hafa gripið í skærin í afleysingum. En nú snýr hún sem sagt aftur í hársnyrtiiðnina – frá annarri hlið en áður - og segist geta í framtíðinni hugsað sér að skipta starfskröftunum í að kenna og vinna í faginu.

„Ég byrjaði hér í VMA á listnámsbraut og var komin vel á veg með það nám. En þegar ákveðið var að byrja með nám í hársnyrtiiðn hér í skólanum skipti ég um námsbraut. Ég lauk síðan stúdentsprófinu að loknu starfsnámi. Hver veit nema ég eigi eftir að ljúka því sem upp á vantaði á listnámsbrautinni,“ segir Jana.