Fara í efni

Frábærar viðtökur - tvær sýningar um helgina

Örn Smári Jónsson á fjölunum í Bót og betrun.
Örn Smári Jónsson á fjölunum í Bót og betrun.

„Mér er efst í huga mikið þakklæti til allra sem hafa lagt af mörkum til þess að gera þessa sýningu mögulega. Viðtökurnar hafa farið fram úr öllum okkar vonum. Ég trúði því raunar allan tímann að þetta yrði gott en ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta yrði svona gott,“ segir Örn Smári Jónsson, formaður Leikfélags VMA. Um helgina eru tvær sýningar á Bót og betrun, farsanum sem óhætt er að segja að hafi slegið í gegn. Allir sem hafa séð sýninguna hafa farið mjög lofsamlegum orðum um hana, umgjörðina og frammistöðu leikaranna. Það er dagljóst að Saga G. Jónsdóttir hefur gert frábæra hluti við uppfærslu á Bót og betrun.

Það má rifja það upp að Örn Smári, sem er reynsluboltinn í leikhópnum, kom upphaflega með þá hugmynd að Leikfélag VMA setti upp farsa í vetur. Í mörg undanfarin ár hafa söngleikir verið settir upp og því var hugmynd Arnar Smára eilítið byltingarkennd og ekki síst þegar haft er í huga að þetta leiklistarform, farsarnir, eru erfiðara en flest annað í leiklist. Það krefst mikils af leikurunum, að þeir séu meira en hundrað prósent á tánum allan tímann. Og það gengur fullkomlega upp í sýningu Leikfélags VMA.

Sem fyrr segir hafa viðtökurnar verið frábærar. Fjöldamargar ánægjuraddir hafa sést á samfélagsmiðlum og Elsa María Guðmundsdóttir skrifaði mjög lofsamlega umsögn um uppfærsluna á Kaffid.is.

Til stóð að sýningarnar tvær núna um helgina, í kvöld, og annað kvöld kl. 20:00 bæði kvöldin, yrðu þær síðustu á verkinu en í ljósi góðrar aðsóknar hefur verið ákveðið að bæta við tveimur lokasýningum sem verða um næstu helgi. Miðasalan er sem fyrr á Tix.is.

Það er ekki ofsögum sagt að Örn Smári Jónsson sé reynsluboltinn í leikhópnum enda er Bót og betrun hans fimmta sýning í VMA. Hann hefur verið á sviðinu í fjórum þeirra; auk sýningarinnar í ár eru það Ávaxtakarfan, Tröll og Grís og í fimmtu sýningunni, Bugsý Malón, var hann markaðsstjóri.

Örn Smári segir að hefði hann ekki komið í VMA á sínum tíma og skellt sér í leiklistarstarfið hefði hann ekki fengið áhuga á leiklist. Leikaradraumurinn hafi aldrei verið upp á borðum hjá sér þegar hann var yngri. En þátttakan í öllum þessum leikritum í VMA hafi breytt því og nú stefni hann á að sækja um leiklistarnám í Listaháskóla Íslands að loknu námi á myndlistarsviði listnáms- og hönnunarbrautar VMA í vor. Örn Smári er raunar nú þegar útskrifaður stúdent frá VMA af fjölgreinabraut en hann segist ekki hafa verið viðstaddur útskriftina því honum hafi einhvern veginn ekki fundist að hann hafi verið búinn með skólann. Því hafi hann ákveðið að taka þennan vetur á listnáms- og hönnunarbrautinni og ljúka öllum fagáföngum þar – og þar með klára listnáms- og hönnunarbrautina líka til hliðar við stúdentsprófið af fjölgreinabraut.

„Mitt áhugasvið liggur í fjölbreyttri sköpun – hvort sem það er leiklist, tónlist eða myndlist. Á listnáms- og hönnunarbrautinni kynnist maður svo ótrúlega mörgu í sköpun – hvort sem það eru gjörningar, ljósmyndun, grafík, listasaga o.s.frv. Þetta er mjög góður grunnur fyrir svo margt og mér fannst ég standa sterkar að vígi að bæta við mig þessu námi áður en ég gerði atlögu að því að sækja um leiklistarnámið,“ segir Örn Smári Jónsson.