Fara í efni

Frá Grenå og Þrándheimi í starfsnám á Akureyri

Lisbeth Kristiansen (t.v.) og Emilie Christensson.
Lisbeth Kristiansen (t.v.) og Emilie Christensson.

Í mörg undanfarin ár hefur ver gott og náið samstarf VMA við skóla á Norðurlöndum um m.a. gagnkvæmar heimsóknir nemenda í starfsnám. VMA sendir á hverjum vetri nemendur í starfsnám til Norðurlandanna og sömuleiðis koma hingað nemendur til þess að taka hluta af sínu starfsnámi. Í byrjun þessarar viku komu til Akureyrar tvær stúlkur  – Lisbeth Kristiansen frá Grenå í Danmörku og Emilie Christensson frá Þrándheimi í Noregi – til þess að taka starfsnám á Akureyri.

Lisbeth, sem er tvítug, er á lokasprettinum í námi sínu sem leikskólaliði – sem á dönsku heitir „pædagogisk assistent“ – og mun hún starfa í fjórar vikur á leikskólanum Kiðagili. Lisbeth segist hafa nú þegar starfað á leikskólum í Danmörku og áhugavert verði að bera saman leikskólastarf hér á landi og í heimalandinu.

VMA hefur lengi átt í góðu samstarfi við framhaldsskólann Charlottenlund í Þrándheimi. Emilie Christensson, sem er átján ára gömul, er í námi sem að nokkru leyti er sambærilegt við sjúkraliðanámið í VMA. Áherslan er þó öllu meiri á umönnun aldraðra. Næstu fjóra mánuði – fram í maí nk. – tekur Emilie hluta af sínu starfsnámi á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Hvorki Lisbeth né Emilie hafa áður komið til Íslands og ekki síst þess vegna voru þær ákveðnar í að taka hluta af sínu starfsnámi hér á Akureyri, þegar það bauðst. Auk þess að vinna á Kiðagili og Hlíð eru þær stöllur ákveðnar í því að kynna sér land og þjóð og sjá sig svolítið um.