Fara í efni

Forvarnardagurinn 2014 í dag: Ýmislegt um að vera í VMA

Forvarnardagurinn 2014 er í dag, 1. október. Í tilefni dagsins ætla nemendur og starfsmenn VMA að hlaupa saman 5 km hring í gegnum Naustaborgir, sýnd verður kvikmyndin Trainspotting fyrir þá sem vilja og einnig verður í tilefni dagsins stofnaður nýr klúbbur í skólanum, Edrúklúbburinn.

Forvarnardagurinn 2014 er í dag, 1. október. Í tilefni dagsins ætla nemendur og starfsmenn VMA að hlaupa saman 5 km hring í gegnum Naustaborgir, sýnd verður kvikmyndin Trainspotting fyrir þá sem vilja og einnig verður í tilefni dagsins stofnaður nýr klúbbur í skólanum, Edrúklúbburinn.

Sérstakur forvarnardagur er haldinn árlega og í ár er hann helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.

Dagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Á vefsíðu forvarnardagsins segir að íslenskar rannsóknir sýni að þeir unglingar sem verji minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum séu síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýni niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýni rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra sé að þau neyti síðar fíkniefna.

Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.

Sem fyrr segir ætlar VMA að taka þátt í forvarnardeginum. Klukkan 11:25 verður sýnd myndin Trainspotting í stofu M-01 fyrir þá sem vija. Síðan munu nemendur og starfsmenn skólans hlaupa saman 5 km hring í gegnum Naustaborgir og verður lagt af stað frá styttunni af Þór austan skólans á slaginu kl. 12:30. Þeir nemendur sem taka þátt í hlaupinu fá ekki fjarvist í tímanum frá 12:30 til 13:10. Loks verður stofnfundur Edrúklúbbsins kl. 16:10 í Gryfjunni.