Fara í efni

Forritun er markmiðið

Kristófer Þorri (t.v.) og Daði Örn.
Kristófer Þorri (t.v.) og Daði Örn.

„Alveg síðan í áttunda bekk hef ég stefnt á nám í forritun og ég tel að besti undirbúningurinn fyrir hana sé nám í rafeindavirkjun. Ég er núna á annarri önn í grunnáminu og held áfram í því næsta vetur og stefnan er að komast í rafeindavirkjunina haustið 2020. Vonandi tekst það. Jafnframt hyggst ég taka stúdentspróf,“ segir Daði Örn Gunnarsson.

„Ég byrjaði reyndar á náttúruvísindabraut hér í VMA eftir tíunda bekk og var á henni sl. vetur. En ákvað að fara frekar í þetta nám til undirbúnings fyrir forritun. Það er auðvitað langt í land en markmiðið er að fara þessa leið í náminu og jafnvel að ljúka einnig rafvirkjuninni, enda þarf ekki að bæta svo miklu við rafeindavirkjunina til þess að klára rafvirkjunina,“ segir Daði Örn. Hann neitar því ekki að gen í þessa átt séu svolítið í blóðinu því faðir hans sé rafeindavirki og því hafi honum gefist færi á því að kynnast faginu svolítið.

Daði Örn og Kristófer Þorri Kristinsson voru ásamt fleiri nemendum í kennslustund hjá Gabríel Snæ Jóhannessyni. Verkefni dagsins var að vinna að því að setja saman lóðstöð. Nauðsynlegt grunnverkefni sem allir nemendur í grunnnámi rafiðna fara í gegnum og læra mikið af. Þeir Daði Örn og Kristófer Þorri hafa lengi þekkst, luku báðir grunnskólanum í Síðuskóla á Akureyri og stunda nú saman nám í grunndeild rafiðna. Eins og Daði Örn stefnir Kristófer Þorri á að fara áfram í rafeindavirkjun. Kristófer Þorri byrjaði í VMA fyrir rösku ári síðan, í ársbyrjun 2018 og var á brautabrú til vors en byrjaði í grunndeild rafiðna sl. haust og er því á annarri önn eins og Daði Örn.

Þeir eru sammála um að námið sé áhugavert og hagnýtt og eftir aðeins rúmlega eina önn hafi þeir öðlast töluverðan skilning á samhengi hlutanna með leyndardóma rafmagnsins.