Fara í efni

Formaður Hollvinasamtaka VMA: Fór í VMA með skottið á milli lappanna

Hildur Eir Bolladóttir, form. Hollvinasamtaka VMA.
Hildur Eir Bolladóttir, form. Hollvinasamtaka VMA.

Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, er formaður Hollvinasamtaka VMA. Hún hóf á sínum tíma nám í MA en færði sig upp í VMA árið 1997 og lauk námi árið 1999. Hún segist hafa komist að raun um að áfangakerfið hafi hentað sér betur en bekkjarkerfið og eftir á að hyggja hefði hún átt að fara beint í Verkmenntaskólann. Hún segir mikilvægt að styðja við starfsemi VMA og þannig séu Hollvinasamtökin hugsuð, um leið og þau vilji vekja athygli á því fjölbreytta starfi sem fer fram innan veggja skólans.

Stærðfræðin orsakaði vistaskipti
„Ég fór á sínum tíma í MA og var mjög virk félagslega þar, var meðal annars í stjórn leikfélagsins og formaður málfundafélagsins. En hins vegar gleymdi ég alveg einu í þessu öllu saman, að læra! Einhvern veginn komst ég upp með það í öllum fögum nema stærðfræði. Í henni féll ég hvað eftir annað, eins og margir aðrir. Eftir þriggja ára veru í MA tók ég þá ákvörðun að skipta yfir í VMA og þá ákvörðun tók ég einungis vegna stærðfræðinnar. Þessi tregða mín í stærðfræðinni gerði mér mjög erfitt fyrir í bekkjarkerfinu í MA og því varð ég að leita annarra leiða. Í það heila tók það mig fimm ár að ljúka stúdentsprófi, ég var þrjú ár í MA og síðan tvö í VMA.
Þegar upp í VMA var komið vissi ég að nú væri að duga eða drepast fyrir mig og ég yrði að taka mig á í stærðfræðinni. Og það var mín gæfa að hitta fyrst fyrir Baldvin Bjarnason stærðfræðikennara, sem er besti stærðfræðikennari sem ég hef haft um dagana. Í fyrsta skipti á ævinni kviknaði ljós í stærðfræði og það vaknaði hjá mér von um að eftir allt saman gæti ég lært hana. Baldvin útskýrði hlutina frá grunni á þann hátt að það var ekki hægt annað en að skilja hvað hann var að fara.  Baldvin og fleiri góðir stærðfræðikennarar í VMA gerðu mér mögulegt að komast yfir þennan  óyfirstíganlega þröskuld og ég lauk sem sagt stúdentsprófi í VMA.  Auðvitað fannst mér pínu sorglegt að þurfa að skipta um skóla því ég átti mína vini í MA og ég elskaði félagslífið þar. En eftir á að hyggja þakka ég fyrir að hafa þurft að skipta um skóla því þetta gaf mér tækifæri til þess að kynnast fleira fólki og ég hafði líka mjög gott af þessu því þetta lækkaði aðeins í mér rostann. Ég var ábyggilega alveg til í, eins og margir skólafélaga  minna í MA, að líta aðeins niður á Verkmenntaskólann. En ég sem sagt fór úr MA upp í VMA með skottið á milli lappanna og komst fljótlega að því að þetta er frábær menntastofnun með massíft nám og frábæra kennara. Og ég fann fljótt að áfangakerfið hentaði mér mjög vel því það felur í sér að maður er kallaður meira til ábyrgðar með því til dæmis að setja saman sína eigin stundaskrá og raða saman fögum. Þetta fannst mér gott og hentaði mér vel. Mér fannst líka mjög gaman að vera í tímum með fólki á öllum aldri og fyrir vikið komu í kennslustundum oft fram góðar spurningar frá þessu lífsreynda fólki sem maður naut góðs af og þroskaði mann.  Maður fylgdist líka úr fjarlægð með krökkunum sem voru á verknámsbrautunum og áttaði sig betur en áður á því hversu yfirgripsmikið og krefjandi nám nemendur í hverskonar verknámi fara í gegnum.“

Viljum styðja skólann eins og kostur er
Hildur Eir segist hafa úr fjarlægð reynt að fylgjast með starfi Verkmenntaskólans og hún hafi verið fús að vinna á vettvangi Hollvinasamtaka VMA að því að styðja við og efla skólann eins og kostur er.  „Með stofnun samtakanna vildum við vekja athygli á skólanum og gæðum hans og um leið að koma á meiri tengslum við brautskráða nemendur. Það má kannski segja að Hollvinasamtökin hafi verið hugsuð til þess að styðja við skólann með því að vekja athygli á fjölbreyttu starfi hans, ekki síst verknámi því það hefur oft fengið frekar neikvæða umfjöllun. Einnig viljum við styrkja skólann með gjöfum sem komi honum og starfi hans að gagni og byggja brú milli hans og atvinnulífsins. Við erum núna með um hundrað skráða félaga í Hollvinasamtökunum og við viljum höfða til almennings og stjórnenda í atvinnulífinu að leggja samtökunum lið með því að ganga í þau. Einnig væri gaman að fá fleiri eldri nemendur, til dæmis þá nemendur sem eiga brautskráningarafmæli, til liðs við Hollvinasamtökin,“ segir Hildur Eir.
Hollvinasamtökin hafa nú þegar afhent VMA eina veglega gjöf. Það var gert 11. október sl.  þegar þess var minnst að 30 ár eru liðin frá því að skólinn hóf starfsemi. Um er að ræða iMAC margmiðlunartölvu sem miðað er við að nýtist nemendum vel m.a. við tölvumyndavinnslu.

Hollvinasamtökin stofnuð árið 2012
Hollvinasamtök VMA voru stofnuð á málþingi tileinkað viku málm- og véltæknigreina 17. september 2012 með það að markmiði að efla kaup á tækjabúnaði við VMA og auka og styrkja tengsl skólans við fyrirtæki og stofnanir. Jafnframt að efla tengsl við samfélagið, útskrifaða nemendur skólans og aðra þá, er bera hag hans fyrir brjósti. Til að efla þessi tengsl leita samtökin eftir stuðningi fyrirtækja og einstaklinga til eflingar tækjabúnaðar og aðstöðu í skólanum. Þá eru samtökin vettvangur fyrir umræður um nám og kennslu í VMA t.d. með því að koma að málþingum og fræðslu er varða skólamál. Þá eru Hollvinasamtök VMA vettvangur fyrir fyrrum nemendur skólans með því að efla  og um leið að stuðla að því að útskrifaðir nemendur hittist, t.d. afmælisárgangar. 

Samtökin eru fjármögnuð með  frjálsum framlögum félagsmanna eða annarra og skal tekjum varið til kaupa á tækjabúnaði til eflingar kennslu við skólann. Frjáls framlög má merkja ákveðinni starfsemi, deild innan skólans eða tilteknu verkefni.

Samtökin hafa kennitöluna 451212-0440 og reikningsnúmer  í Íslandsbanka er: 0565-14-402965.

Þeir sem vilja styrkja Hollvinasamtök VMA hafi samband við Hildi Eir (hildur@akirkja.is) eða Björk Guðmundsdóttur, skrifstofustjóra VMA (bjork@vma.is).

Allir geta gerst félagar í Hollvinasamtökum VMA með því að skrá sig á netfangið vma@vma.is