Fara í efni

Fönix skapaður í akrílverki

Magnús Mar Väljaots við akrílverkið sitt, Fönix.
Magnús Mar Väljaots við akrílverkið sitt, Fönix.
Magnús Mar Väljaots er tvítyngdur - talar bæði íslensku og eistnesku. Fæddist á Íslandi - nánar tiltekið á Húsavík - 1997 en hefur undanfarin ár búið á Akureyri með foreldrum sínum og systur. Foreldrar hans, Eneli og Valmar Väljaots, og eldri systir hans, Elise Marie, fluttust til Íslands frá Eistlandi og síðan hefur Valmar starfað sem tónlistarmaður hér, nú er hann organisti við Glerárkirkju auk þess sem hann spilar allskyns tónlist við hin og þessi tækifæri.
Magnús Mar segir að á heimilinu sé almennt töluð eistneska en sín á milli tali þau systkinin íslensku. Elise Marie er raunar núna í námi í Glasgow í Skotlandi.
Tónlistarbraut hefði orðið fyrir valinu, segir Magnús Mar, ef hún hefði verið í boði í VMA þegar hann fór í framhaldsskóla. En fyrst tónlistarbrautin bauðst ekki í VMA var niðurstaðan sú að fara á myndlistarkjörsvið listnámsbrautar. Hann segir námið hafa verið mjög áhugavert, hann hafi kunnað best við abstraktformið þó svo að margt annað hafi vakið áhuga. Á haustönn vann hann þetta verk á námskeiði hjá Björk Eiríksdóttur, þar sem akríllitirnir fá að njóta sín. Verkið er nú til sýnis á vegg gegnt austurinngangi VMA. Magnús segir að hann hafi ekki haft mótaða skoðun á því hvað út úr verkinu ætti að koma þegar hann hóf að mála það en síðan hafi það smám saman tekið á sig mynd og úrkoman sé þessi. Um nafnið á verkinu, Fönix, segir Magnús Mar að í rauninni hafi hann ekki áttað sig á tengingu verksins við Fönix fyrr en vinur hans hafi séð Fönix í því. Þess má geta að fuglinn Fönix er nefndur bæði í grískri og rómveskri goðafræði. Í báðum þessum trúarbrögðum var guð sólarinnar táknaður með eldfuglinum Fönix.
Magnús Mar segir stefnuna á að ljúka stúdentsprófi af listnámsbraut en ekki liggi nákvæmlega fyrir á þessari stundu hvenær það verði. Eftir það segist hann ekki með mótaðar skoðanir á því hvert hugurinn stefni, en ekki sé ólíklegt að hann muni horfa til tónlistarnáms í einhverri mynd.