Fara í efni

Fjör í lýðheilsuviku: Boccia, bekkpressa og salsa

Þorsteinn Ægir Óttarsson glímir við ofurþyngd.
Þorsteinn Ægir Óttarsson glímir við ofurþyngd.

Það hefur verið líf og fjör í lýðheilsuviku í VMA sem lýkur á morgun. Í vikunni hafa margir spilað boccia í Gryfjunni, tekið á því í róðrarvélinni, tekið salsaspor í ríkum mæli og síðast en ekki síst lyft lóðum.

Á síðasta skólaári var efnt til móts í réttstöðulyftu í Gryfjunni í samvinnu við Kraftlyftingafélag Akureyrar og í dag var aftur efnt til lyftingamóts í samvinnu við KFA og nú lyftu kraftajötnar lóðum í bekkpressu. Mikil stemning var í Gryfjunni og áhorfendur hvöttu lyftingamennina óspart. 

Sjö keppendur mættu til leiks á bekkpressumótinu og það kom ekki á óvart að Þorsteinn Ægir Óttarsson skyldi standa uppi sem sigurvegari, hann lyfti 170 kg. Þorsteinn Ægir vann einnig réttstöðulyftumótið á síðasta skólaári. Annar í bekkpressumótinu í dag varð Baldvin Ringsted, hann lyfti 115 kg, Ólafur Björgvin Jónsson varð þriðji, lyfti 110 kg, og Ómar Kristinsson fjórði með 105 kg.

Hér eru myndir sem Hilmar Friðjónsson tók á bekkpressumótinu í dag og af bocciaspilurum fyrr í þessari viku.

Sem fyrr segir voru stigin salsaspor í lýðheilsuviku og höfðu þátttakendur mikla ánægju af. Salsadansinum stýrði Wolfgang Frosti Sahr. Valgerður Dögg Oddudóttir Jónsdóttir fylgdist með og tók þessar myndir