Fara í efni

Fjölbreytt og skemmtilegt starf

Bragi er hér að leiðbeina nemendum í grunndeild.
Bragi er hér að leiðbeina nemendum í grunndeild.

„Ég var síðast nemendi hér í VMA fyrir tveimur árum þegar ég lauk meistaranáminu í húsasmíði. Áður hafði ég tekið grunnnámið í bæði húsasmíði og húsgagnasmíði og síðan bætti ég við mig meistararéttindum í báðum greinum. Árið 2011 tók ég síðan kennsluréttindi í lotunámi í Háskóla Íslands. Ég hafði alltaf stefnt að því að kenna hérna og á sínum tíma þegar ég útskrifaðist sótti ég hálf partinn um vinnu hér. Hlutirnir hafa síðan æxlast þannig að ég kenni á þessari önn hérna í byggingadeildinni í afleysingum,“ segir Bragi S. Óskarsson, kennari í byggingagreinum í VMA.

Áður en Bragi fór í byggingageirann hafði hann tekið bæði félagsfræðabraut og íþróttabraut í VMA. „Ég var í skólanum í ein fjórtán ár, frá 1999,“ segir Bragi og hlær. „Upphaflega sótti ég um að læra rafvirkjun en komst ekki inn og þá ákvað ég taka félagsfræði til stúdentsprófs. Á þessum tíma ætlaði ég einnig að verða skíðaþjálfari en ég jafnaði mig síðan á því. Ég er búinn að fara í marga hringi en fann loks mína fjöl í smíðunum. Í skóla í Ólafsfirði, þar sem ég fæddur og uppalinn, hafði ég reyndar alltaf gaman af því að smíða, þökk sé Birni Þór Ólafssyni, kennara og skíðafrömuði, sem kenndi þá smíðar í Ólafsfirði, en ég leiddi aldrei hugann að því þá að læra þetta fag.“

Eftir að Bragi lauk meistararéttindum í bæði húsasmíði og húsgagnasmíði stofnaði hann eigin trésmíðafyrirtæki, BÓ innréttingar, og hefur síðustu ár einbeitt sér að því að smíða innréttingar, fyrst og fremst fyrir einstaklinga. Innréttingasmíðinni ýtti hann til hliðar fram að áramótum á meðan hann sinnir kennslu í VMA. „Það hefur verið yfirlýst stefna hjá mér alveg frá því ég útskrifaðist að kenna hér og það hefur sem sagt ræst, tímabundið í það minnsta,“ segir Bragi og brosir.

„Mér finnst mjög skemmtilegt og gefandi að kenna. Ég er að vísu ekki búinn að kenna í margar vikur en þetta byrjar mjög vel. Það er gaman að sjá hversu fljótir margir nemendur eru að tileinka sér rétt vinnubrögð og þeir taka miklum framförum á stuttum tíma. Þetta er líka ótrúlega fjölbreytt starf. Ég kenni bæði bókleg og verkleg fög og það er virkilega skemmtilegt,“ segir Bragi.