Fara í efni

Fjögur leikverk á svið á fjórum mánuðum

Á frívaktinni eftir Pétur Guðjónsson á Króknum.
Á frívaktinni eftir Pétur Guðjónsson á Króknum.

Það verður ekki annað sagt en að Pétur Guðjónsson viðburðastjóri VMA hafi mörg járn í eldinum. Svo hefur verið í vetur eins og oft áður, ekki síst í leiklistinni, þar sem hann hefur haslað sér völl í auknum mæli undanfarin ár. Það sem af er þessu ári hafa verið frumsýnd þrjú leikverk sem hann hefur leikstýrt og nk. föstudagskvöld verður það fjórða frumsýnt – og það sem meira er að um er að ræða splunkunýtt leikverk sem Pétur skrifaði.

Þegar horft er til baka er kraftaverki næst að uppfærslan á Grís í uppfærslu Leikfélags VMA skyldi takast í febrúar og mars. Hefði frumsýningin verið eilítið síðar er hætt við að annað hefði verið upp á teningnum því Covid gerði það að verkum að sóttvarnareglur voru hertar umtalsvert skömmu fyrir páska. En Grís komst á fjalirnar á réttum tíma og Pétur er ánægður með hvernig til tókst.

Til hliðar við uppfærsluna á Grís hefur Pétur frá áramótum kennt við Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar – sem er fyrir grunnskólakrakka á aldrinum 13 til 16 ára – og afraksturinn af þeirri vinnu birtist í tveimur leiksýningum á Barnamenningarhátíðinni í Hofi á Akureyri í síðustu viku, annars vegar settu krakkarnir upp Höfðingjabaráttuna eftir Egil Andrason og hins vegar Ég er frábær eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur.

Stóra leiklistarverkefni Péturs í mars og apríl og þessa fyrstu viku í maí hefur þó verið að leikstýra nýju leikverki eftir hann sjálfan, Á frívaktinni, í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks. Frumsýning verður nk. föstudagskvöld, 7. maí, í Bifröst á Sauðárkróki.

Pétur rifjar upp að hugmyndin að verkinu hafi kviknað þegar hann var að horfa á þátt um sjómennsku í þáttaröðinni Veröld sem var sem Felix Bergsson og Margrét Blöndal voru með í Ríkissjónvarpinu. Í framhaldi af því að hann hafi leikstýrt Línu langsokk hjá Leikfélagi Sauðárkróks hafi hann orðið við áskorun félagsins um að setjast við tölvuna og færa hugmyndina um Á frívaktinni í raunverulegt leikhúsverk. Til hafi staðið að sýna verkið sl. vor en Covid hafi sett strik í þann reikning og aftur hafi hugmyndin verið að sýna verkið sl. haust en sem fyrr gerði kórónuveiran þau áform að engu. En nú var látið slag standa og þetta splunkunýja verk er að fá á sig lokamynd í Bifröst á Króknum. Pétur segir að vissulega hafi kórónuveirufaraldurinn sett mark sitt á undirbúningsferlið, leikhópnum hafi þurft að skipta upp á æfingum, rétt eins og í æfingaferlinu á Grís, en allt hafi þetta þó gengið ágætlega upp.

Á frívaktinni – óskalög sjómanna var heiti á útvarpsþætti sem gekk á Rás 1 – gömlu gufu Ríkisútvarpsins í mörg ár. Pétur segir að í rauninni sé leikverkið skrifað í kringum þennan gamalgróna og vinsæla útvarpsþátt, þar sem hafsins hetjur fengu óskalögin sín spiluð á öldum ljósvakans. „Ég hef valið að lýsa þessu verki sem leikriti með söngvum. Í verkinu eru sautján lög, bróðurparturinn mjög vel þekkt lög, og einnig fékk að fljóta með eitt nýtt frumsamið lag eftir Elmar Sindra Eiríksson og Brynjar Davíðsson, sem mér fannst smellpassa inn í sýninguna. Þegar ég skrifaði þetta verk leitaði ég víða heimilda enda er ég síður en svo sérfræðingur í sjómennsku, hvorki í þátíð né nútíð. Ég held að hafi tekist að koma ýmsum hlutum að í verkinu; húmor, trega, mannlegum breyskleika, hippamenningu, kvenréttindabaráttu o.fl. Æfingaferlið hefur verið skemmtilegt og gefandi og verkið hefur tekið miklum breytingum og er enn, þessa síðustu daga fyrir frumsýningu, að breytast. Leikhópurinn hefur heldur betur lagt sitt inn í að skapa þetta verk enda hefur Leikfélag Sauðárkróks á að skipa margreyndu hæfileikafólki. Einnig taka nemendur úr Fjölbrautaskólanum á Króknum, sem ég hef líka unnið með, þátt í uppfærslunni,“ segir Pétur.

Pétur neitar því ekki að það sé í mikið ráðist að frumsýna fjögur leikverk, sem hann hefur leikstýrt, á fjórum mánuðum. En stundum sé ekki við aðstæður ráðið eins og veruleikinn hafi verið undanfarnar vikur og mánuði. Covid hafi tekið völdin í þessu eins og mörgu öðru og út frá því hafi þurft að vinna.

Og svona í lokin - Ásgeir Ólafsson átti skemmtilegt og fróðlegt spjall við Pétur í hlaðvarpsþættinum 10 bestu í síðustu viku. Hér er hlekkur á viðtalið.