Fara í efni

Fjarnám hefst í næstu viku

Fjarnám á vorönn hefst í VMA í byrjun næstu viku og eru 530 nemendur skráðir að þessu sinni, sem eru ívið fleiri fjarnemar en á haustönn. Sem fyrr eru flestir skráðir í ensku og íslensku.

Fjarnám á vorönn hefst í VMA í byrjun næstu viku og eru 530 nemendur skráðir að þessu sinni, sem eru ívið fleiri fjarnemar en á haustönn. Sem fyrr eru flestir skráðir í ensku og íslensku.

 Fjarnám VMA hefur fyrir löngu fest sig í sessi og er fyrir marga kærkomin viðbót við dagskólanámið. Í fjarnám eru skráðir bæði framhaldsskólanemendur, í VMA og öðrum framhaldsskólum, og síðan eru fjölmargir aðrir sem taka námskeið til þess að bæta við sig þekkingu í lífsins skóla og/eða styrkja sig á vinnumarkaði. „Fyrir framhaldsskólanemendur er fjarnámið góð leið til þess að taka ákveðna áfanga með vinnu og síðan eru þess mörg dæmi að þeir taka áfanga í fjarnámi til viðbótar við nám í dagskóla. Með því móti geta nemendur flýtt fyrir sér í námi, tekið mögulega stúdentspróf á þremur árum í stað fjögurra. Mér sýnist að um hundrað nemendur í dagskóla hér í VMA séu einnig skráðir í fjarnám á vorönn. Þetta er svipaður fjöldi og áður,“ segir Ingimar Árnason, kennslustjóri fjarnáms við VMA.

Fjarnám VMA hefur m.a. þá sérstöðu að þar er boðið upp á meistaraskóla iðngreina og eru 15 nemendur skráðir.

Að sögn Ingimars eru um sextíu kennarar sem kenna í fjarnáminu og eru fjórir af hverjum fimm þeirra kennarar við VMA.