Fara í efni

Fiskabúrið kveikti áhuga á líffræði

Jakob Axel Axelsson.
Jakob Axel Axelsson.

Jakob Axel Axelsson hóf nám á náttúrufræðibraut VMA núna á vorönn en áður hafði hann verið í þrjá vetur í Fjöbrautaskólaskólanum í Garðabæ. Ástæðan fyrir því að hann flutti sig milli skóla var sú að fjölskyldan flutti norður yfir heiðar.

„Við bjuggum í Mosfellsbæ en ég stundaði hins vegar nám í Fjölbraut í Garðabæ. Ég er mjög sáttur við að hafa flutt hingað norður og er ánægður með skólann. „Af því að VMA er verknámsskóli átti ég satt best að segja ekki von á því að nátturfræðisviðið væri eins sterkt og raun ber vitni. Ég er mjög sáttur við námið og kennslan er virkilega góð,“ segir Jakob Axel.

Hann segir það ekkert launungarmál að líffræðin sé hans uppáhalds námsgrein og hafi lengi verið. „Ætli áhuginn á líffræðinni hafi ekki fyrst kviknað þegar ég fékk fiskabúr. Allar götur síðan hef ég haft sérstaklega mikinn áhuga á fiskum,“ segir Jakob og bætir við að hann lesi sér mikið til um líffræði af ýmsum toga. „Ég ligg hreinlega yfir þessu,“ segir hann.

Í ljósi þessa mikla líffræðiáhuga eru framtíðaráformin skýr: „Í efstu bekkjum grunnskóla ákvað ég að verða doktor í líffræði og þau áform hafa ekki breyst,“ segir Jakob Axel Axelsson.