Fara í efni

Fínt að vera einn við trönurnar

Stefán Óli Bessason við raunsæismálverkið sitt.
Stefán Óli Bessason við raunsæismálverkið sitt.

„Ástæðan fyrir því að ég valdi þetta nám var að ég hef lengi fengist við sköpun af ýmsu tagi, bæði í tónlist og myndlist. Valið kom því nokkuð að sjálfu sér. Ég hef lengi verið í tónlistarskóla og hef spilað, mest á gítar, síðan ég var ellefu ára. Tónlistin hefur núna á síðustu árum vikið og myndlistin jafnframt tekið yfir. Núna höfðar myndlistin sterkar til mín, þar upplifi ég meira frelsi. Og mér finnst fínt að vera bara einn við trönurnar,“ segir Stefán Óli Bessason, sem lýkur námi af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar í vor.

„Ég hef mest verið að vinna abstrakt expressíonísk málverk, fyrst og fremst í akríl. Ég hef takmarkaða þolinmæði í olíuna! Námið hefur verið mjög skemmtilegt og ég held að ég sé kominn á réttan stað. Í það minnsta er ég að fara að sækja um háskólanám í listmálun í London, vonandi kemst ég í það strax næsta haust. Ég vil sjá eitthvað allt öðruvísi og vera í öðru umhverfi. Það er um að gera að nýta tímann vel þegar maður er svona ungur. Það er hollt fyrir alla að sjá eitthvað nýtt. Ég hef farið tvisvar til London og borgin heillaði mig mjög,“ segir Stefán Óli.

Nú hangir akrílmynd eftir Stefán Óla, sem hann gerði í áfanganum MYL 504 á haustönn, uppi á vegg gegnt austurinngangi VMA. „Ég byrjaði ekki að mála á striga fyrr en í janúar í fyrra og ég leit á þessa mynd sem próf í því hvort ég gæti yfirleitt málað slíkt raunsæismálverk. Mig langaði að hafa yfirbragð myndarinnar klassískt og skoðaði fullt af málverkum í þessum stíl. Þetta varð niðurstaðan,“ segir Stefán Óli Bessason.