Fara í efni

Finnst ég vera átján á nýjan leik

Freydís Heiðarsdóttir.
Freydís Heiðarsdóttir.
Mörg dæmi eru um nemendur í Verkmenntaskólanum á Akureyri sem hafa tekið upp námsþráðinn eftir langt hlé frá skóla og njóta þess út í ystu æsar að setjast á ný á skólabekk. Akureyringurinn Freydís Heiðarsdóttir, nemandi á textílkjörsviði listnámsbrautar, er gott dæmi um slíkan nemanda. Hún hætti skólagöngu eftir grunnskóla fyrir sextán árum en tók upp þráðinn á ný fyrir röskum tveimur árum og er komin vel á veg í námi sínu í VMA.

Mörg dæmi eru um nemendur í Verkmenntaskólanum á Akureyri sem hafa tekið upp námsþráðinn eftir langt hlé frá skóla og njóta þess út í ystu æsar að setjast á ný á skólabekk. Akureyringurinn Freydís Heiðarsdóttir, nemandi á textílkjörsviði listnámsbrautar, er gott dæmi um slíkan nemanda. Hún hætti skólagöngu eftir grunnskóla fyrir sextán árum en tók upp þráðinn á ný fyrir röskum tveimur árum og er komin vel á veg í námi sínu í VMA.

Freydís er fædd árið 1981 og verður því 33ja ára á þessu ári. Hún rifjar upp að hún hafi ætlað að fara í VMA eftir grunnskóla en hætt áður en skólinn byrjaði. „Ég var einfaldlega svo ung og vitlaus í þá daga,“ segir Freydís og bætir við að margt annað hafi freistað á þeim tíma en að setjast á skólabekk. Átján ára eignaðist hún fyrra barnið sitt og hóf búskap. Lífið var þó ekki dans á rósum, meðgangan var erfið og dóttirin var veik fyrstu tvö árin. Freydís gerði aðra atlögu að því að fara í VMA árið 2004 en það fór eins og áður að ekkert varð úr skólagöngunni. Annað barn kom í heiminn árið 2005.

Í tímans rás hefur á ýmsu gengið. Freydís var úrskurð öryrki vegna sjálfofnæmis á háu stigi, sem háir henni í daglegu lífi. „Með tímanum varð ég heimavinnandi húsmóðir og öryrki sem einangraðist frá samfélaginu. Allir mínir vinir voru annað hvort í vinnu eða skóla,“ segir Freydís og hugsaði sem svo að hún yrði að freista þess að brjótast út úr þessu daglega munstri. Til þess að komast inn í VMA skorti hana ákveðinn grunn og sjálfstraust til þess að takast á við nám. Úr varð að Freydís tók nokkur grunnfög hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og öðlaðist við það það sjálfsöryggi sem hún taldi sig þurfa til þess að takast á við nám á nýjan leik. Hóf síðan nám í VMA haustið 2011 og hugsaði með sér að hún vildi fyrst og fremst fara á listnámsbraut til þess að ná þar í ákveðinn grunn til þess að hafa í bakhöndinni til þess að komast inn í Myndlistaskólann á Akureyri. „En hér er ég enn. Ég get alveg viðurkennt að til að byrja með fannst mér þetta erfitt og ég upplifði mig gamla innan um allt þetta unga fólk. En nú finnst mér ég vera átján og finn ekki á nokkurn hátt fyrir því að ég sé dálítið eldri en margir skólafélaga minna. Námið hérna á textílkjörsviði listnámsbrautar er alveg frábært og nemendahópurinn er einstaklega góður og samheldinn. Og kennararnir á listnámsbrautinni eru ótrúlegir, mikið fagfólk og um leið miklir vinir okkar. Ég lít mjög upp til þeirra og er þeim afar þakklát fyrir þeirra frábæru vinnu í okkar þágu. Ég nýt þessa náms og það hefur veitt mér mikla gleði,“ segir Freydís. Hún segist vera komin vel á veg með nám til stúdentsprófs og stefni á að ljúka því. Í framhaldinu hafi hún mikinn áhuga á því að læra textílhönnum í útlöndum. „En þetta verður bara allt að koma í ljós. Ég er nú ekki nema 32ja ára gömul,“ segir Freydís og brosir.

Freydís var í tíma í vefnaði þegar hún var tekin tali. Ragnheiður Þórsdóttir kennari gekk á milli vefstólanna og leiðbeindi nemendum sem eru á öllum aldri og komnir misjafnlega langt í náminu. Hér eru nokkrar myndir úr þessari kennslustund í vefnaði.