Fara í efni

Fimm nemendur í VMA sæmdir forsetamerkinu

Forsetamerkishafar úr Klakki á Bessastöðum. Mynd af vef Skátafélagsins Klakks.
Forsetamerkishafar úr Klakki á Bessastöðum. Mynd af vef Skátafélagsins Klakks.

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, sem er verndari skátahreyfingarinnar á Íslandi, sæmdi 26 rekkaskáta forsetamerkinu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum sl. sunnudag. Þar af voru átta úr Skátafélaginu Klakki á Akureyri og fimm þeirra stunda nám við VMA: Anton Dagur Björgvinsson, Ásbjörn Garðar Yngvason, Birkir Kári Gíslason, Birkir Kári Helgason og Hörður Andri Baldursson.

Fram kemur á vef skátahreyfingarinnar að í forsetamerkinu sameinist gildi skátahreyfingarinnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu sé 2-3 ára verkefni sem hvetji skátana til persónulegs vaxtar í gegnum 24 fjölbreytt verkefni sem skátarnir þurfi að vinna að.

Á vef skátahreyfingarinnar, skatarnir.is, segir síðan:

Í byrjun vegferðarinnar setja skátarnir sér markmið fyrir rekkaskátastarfið sitt og í lok hennar endurmeta þeir síðan vegferðina. Skátarnir þurfa að ljúka verkefnum úr fjórum verkefnaflokkum: Leiðtogafærni, Skapandi hugur, Heimurinn og umhverfið og Tilveran mín. Til þess að öðlast merkið þurfa skátarnir meðal annars að sækja 5 daga skátamót, ferðast 40 kílómetra á eigin afli, sækja helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun og 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Að lokum velja skátarnir sér 2 langtímaverkefni sem krefjast virkrar þátttöku þeirra yfir 3-12 mánaða tímabil. Dæmi um þetta eru að vera foringi yngri skáta, taka þátt í skipulagi stórs skátamóts, sitja í stjórn skátafélags, ráði eða vinnuhóp, að taka að sér viðhald skátaheimilis eða skátaskála og margt fleira sem forsetismerkishafar hafa látið sér detta í hug.

Á þessu ári eru 60 ár liðin frá því að fyrsta forsetamerkið var veitt – frá 1965 hafa 1488 skátar verið sæmdir því.

Í stórum dráttum er skátastarfi skipt niður í aldurshópa sem hér segir:

  1. Drekaskátar (6–9 ára)
  2. Fálkaskátar (10–12 ára)
  3. Dróttskátar (13–15 ára)
  4. Rekkaskátar (16–18 ára)
  5. Róverskátar (18 ára og eldri)

En hvaðan kemur nafnið rekkaskáti?
„Rekki“ er gamalt norrænt orð úr fornbókmenntunum sem má t.d. finna í bæði Njálu og Eddukvæðum. Þetta karlkynsorð hefur merkinguna: riddari, kappi, fylgdarmaður, félagi, hetja.
Að öllum líkindum má rekja orðið til „reks“, þ.e. að fylgja, eða reka áfram. Upphafleg merking orðins „rekki“ var því maður í þjónustu eða fylgd höfðingja eða tryggur og vaskur liðsmaður, oft með hugrekki og heiður að leiðarljósi.

Birkir Kári Helgason, nemandi í grunndeild rafiðna í VMA (stefnir á rafeindavirkjun) og einn þeirra skáta í Skátafélaginu Klakki sem voru sæmdir forsetamerkinu sl. sunnudag, segir það vissulega vera mikinn heiður að fá forsetamerkið. Hann segist hafa frá unga aldri starfað í skátahreyfingunni, í raun hafi hann alist upp í hreyfingunni því foreldrar hans hafi báðir verið virkir þar. Hann segir ekki erfitt að sameina námið og skátastarfið enda sé það jafnan ekki eins viðamikið á vetrum og yfir sumarið, fyrst og fremst felist það í reglulegum fundum og nokkrum útilegum.