Fara í efni

Fengu styrk úr Lýðheilsusjóði til þess að innleiða núvitund í kennslu í VMA

Kristjana Pálsdóttir og Valgerður Dögg Jónsdóttir.
Kristjana Pálsdóttir og Valgerður Dögg Jónsdóttir.

Undir lok síðasta skólaárs fengu kennararnir Kristjana Pálsdóttir og Valgerður Dögg Jónsdóttir styrk úr Lýðheilsusjóði til þess að innleiða núvitund í kennslu í VMA. Einnig fengu þær styrk til þess að undirbúa og vinna efni fyrir áfanga í kynheilbrigði sem ætlunin er að standi nemendum í VMA til boða áður en langt um líður.

„Við fengum þennan styrk fyrir hönd VMA frá Lýðheilsusjóði, sem Embætti landlæknis hefur umsjón með. Við sóttum um styrkinn á haustönn 2018 og fengum hann undir lok síðasta skólaárs. Það gafst ekki tækifæri til þess að nýta styrkinn á vorönn en við höfum unnið að því í upphafi þessa skólaárs. Um var að ræða tvo styrki, annars vegar til þess að innleiða núvitund í kennslu hér í skólanum og hins vegar styrk til þess að vinna áfanga um kynheilbrigði. Við ýtum þessu úr vör í lýðheilsuviku í VMA og setjum upp átta vikna prógram í núvitund sem verður fellt inn í lífsleikni hjá nýnemum. Þessa viku nýtum við til þess að kynna hvað í þessu felst en síðan byrjum við í næstu viku og verðum þá í átta vikur með núvitund í lífsleikni hjá nýnemum. Við fjöllum um styrkingu sjálfsmyndarinnar, öndun og líkamann, daglegt umhverfi okkar, þolinmæði, einbeitingu, athygli, minni, kvíða og depurð, uppbyggilegar hugsanir, velvild, kærleik, samkennd og hamingju,“ segir Valgerður Dögg.

Kristjana segir að sl. haust hafi hún, Valgerður Dögg og Benedikt skólameistari setið ráðstefnu í Reykjavík, sem var haldin í samstarfi Embættis landlæknis og menntamálaráðuneytisins, um menntun til vellíðunar. „Ýmislegt sem kom fram á ráðstefnunni veitti okkur innblástur um núvitund, enda sýna rannsóknir að hún er til þess fallin að bæta geðheilsu og styrkja ungt fólk,“ segir Kristjana og bætti við að í framhaldinu hafi þær sótt um styrk til þess að vinna markvisst með núvitund í VMA og nú sé komið að næsta skrefi með kennslu um núvitund sem hluta af lífsleikni. Ef vel takist til bindi þær vonir við að núvitund verði fastur liður í lífsleiknikennslu nýnema í framtíðinni.

„Auk þess að kenna núvitund frá ýmsum hliðum í lífsleikni er hugmynd okkar að hér í skólanum verði einskonar núvitundarver í B-11, sem ég vona að í framtíðinni geti orðið sambærilegt við námsver. Þar geti nemendur komið í eyðum í stundaskránni og unnið frekar með það sem þeir tileinka sér í núvitund í lífsleikninni,“ segir Kristjana.

En hvað er núvitund? Því svarar Kristjana á þann veg að hún sé fyrst og fremst athyglisþjálfun þar sem fólk þjálfist í því að ná stjórn á athyglinni. „Það er fullkomlega eðlilegt að athygli fólks flökti en það er hægt að þjálfa hana eins og margt annað og það á við um alla. Það hefur komið glögglega í ljós að núvitund getur bætt líðan fólks og dregið úr streitu og kvíða. Með meiri yfirvegun er hormónaflæði eðlilegra og lífsklukkan þar með eðilegri og betri,“ segir Kristjana. Hún segist hafa prófað núvitundaræfingar í sálfræðiáfanga sem hún kenndi á haustönn 2018 og það hafi gefið góða raun. Sumum nemendum hafi í byrjun þótt þetta eilítið skrítið en smám saman hafi þeir vanist þessu. „Ég hóf kennslustundirnar á einnar til tveggja mínútna núvitundaræfingum og ég fann fljótt að athygli nemenda og frammistaða var betri þegar við hófum kennslustundirnar á rólegum núvitundaræfingum. Í kjölfarið hafa nemendur í þessum áfanga haft samband við mig og sagt mér að þeir hafi nýtt sér þetta í námi sínu,“ segir Kristjana.

Valgerður segist vita dæmi þess að í fleiri framhaldsskólum hafi verið markvisst unnið með núvitund en í vinnu þeirra Kristjönu hafi ekki verið sérstaklega horft til þess sem aðrir skólar hafi gert í þessum efnum. „Við erum ekki að finna upp hjólið hvað þetta varðar, við höfum kynnt okkur vel ýmsar bækur og greinar sem hafa verið skrifaðar um núvitund. Almennt virðist vera nokkuð algengt að sett sé upp sambærileg átta vikna dagskrá um núvitund, eins og við munum gera hér, en við val á efnisþáttum horfðum við fyrst og fremst til þess að kennslan og æfingarnar nýtist nemendum vel í námi,“ segir Valgerður.

Einn af þekktustu upphafsmönnum núvitundar, eins og við þekkjum hana í dag, er bandaríkjamaðurinn dr. Jon Kabat-Zinn, prófessor emeritus í læknisfræði við University of Massachusetts. Árið 1979 þróaði hann Mindfulness Based Stress Reduction (MBSR), fyrsta átta vikna núvitundarnámskeiðið gegn streitu. Bækur hans hafa vakið mikla athygli og komið út á yfir fjörutíu tungumálum.

Hér segir Jon Kabat-Zinn frá ýmsu er snýr að núvitund.