Fara í efni

Félagslífið komið í fullan gang

Frá árshátíð VMA 2014.
Frá árshátíð VMA 2014.

Félagslífið í VMA er að komast í fullan gang núna á vorönn. Framundan eru ýmsir viðburðir sem má kalla árlega. Konukvöldið er þeirra fyrst, en það verður haldið annað kvöld, fimmtudagskvöld, síðan söngkeppnin í febrúar og síðast en ekki síst árshátíð nemenda í mars.

Sem fyrr segir verður haldið konukvöld annað kvöld, fimmtudagskvöld, í Gryfjunni þar sem Saga Garðarsdóttir leikkona og uppistandari verður aðal skemmtikraftur kvöldsins. Einnig verða tónlistaratriði í höndum nemenda skólans þar sem meðal flytjenda verða Axel Flóvent og Elísa Erlends. Þá mun Magni Ásgeirsson mæta á svæðið og taka lagið. Konukvöldið verður frá kl. 20 til 23. Húsið verður opnað kl. 19:45. Verð aðgöngumiða er kr. 1000 fyrir meðlimi í Þórdunu og Hugin en 1500 kr. fyrir aðra.

Hin árlega söngkeppni, sem er jafnan ein af stærri uppákomum í skólalífinu á ári hverju, verður fimmtudagskvöldið 12. febrúar. Búið er að opna fyrir skráningar í keppnina og eru allir áhugasamir hvattir til að skrá sig. Skráningar skal senda til Péturs Guðjónssonar viðburðastjóra á petur@vma.is fyrir 1. febrúar nk. Pétur segir  ákveðið að halda keppnina að þessu sinni í Menningarhúsinu Hofi. Kynnir verður stórsöngvarinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson en hann sigraði einmitt Söngkeppni VMA árið 2007 og um vorið það sama ár sigraði hann Söngkeppni framhaldsskólanna. Óhikað má segja að þessar tvær söngkeppnir hafi markað upphafið á ferli Eyþórs Inga sem á skömmum tíma hefur skipað sér í framvarðasveit hérlendra dægurlagasöngvara.

Á haustönn var boðið upp á einhverja menningaruppákomu af hálfu nemenda eða starfsfólks í löngu frímínútum í Gryfjunni á fimmtudögum. Var þetta kallað „fimmtudagsfílingur“ og tókst ljómandi vel. Þessu verður fram haldið núna á vorönn en þessar uppákomur færast yfir á miðvikudaga í löngu frímínútur kl. 09:40 og kallast nú „miðvikudagsmessan“. „Þetta heppnaðist gríðarlega vel á haustönn og mér sýnist þetta líta bara mjög vel út núna á vorönn,“ segir Pétur.

Árshátíð nemenda verður í Íþróttahöllinni föstudaginn 6. mars og er undirbúningur að sjálfsögðu kominn í fullan gang. Þegar nær dregur verður upplýst hvaða kynnar verða á hátíðinni svo og hljómsveit.

Pétur segir að einn af liðsmönnum Gettu betur sveitar VMA hafi viðrað þá hugmynd að stofna til einhvers konar málfundafélags innan skólans. „Í þessu sambandi hafa komið upp fjölmargar hugmyndir um verkefni á vegum þessa félags,“ segir Pétur. Hann segir að þó svo að lið VMA hafi ekki riðið feitum hesti frá viðureign sinni við Versló í fyrstu umferð Gettu betur hafi vaknað áhugi á að byrja sem fyrst – helst núna á vorönn – að undirbúa þátttöku skólans að ári og undirbúningsvinnunni verði síðan markvisst haldið áfram á næstu haustönn. Í þessu sambandi ber að nefna að Gettu betur lið VMA hefur skorað á kennara að mæta sér í miðvikudagsmessunni 4. febrúar nk.

Breytingar urðu á nemendaráði núna í janúar. Nýir fulltrúar eru:

Gjaldkeri: Sölvi Fannar Sigmarsson
Nýnemafulltrúi: Matheusz Swierczewski
Kynningarfulltrúi: Egill Bjarni Friðjónsson
Skemmtanastjóri: Hannes Ívar Eyþórsson
Eignastjóri: Hildur Dögg Guðlaugsdóttir.