Fara í efni

Félagslífið í fullan gang á vorönn

Jónas Kári Eiríksson, form. Þórdunu.
Jónas Kári Eiríksson, form. Þórdunu.
Félagslífið í VMA er nú komið í fullan gang á nýrri önn. Sem fyrr hefur Þórduna - nemendafélag VMA, yfirumsjón með félagslífinu í skólanum, en í stjórn félagsins eru tíu nemendur. Formaður félagsins er Skagamaðurinn Jónas Kári Eiríksson, sem er á viðskipta- og hagfræðibraut VMA.

„Verkefni okkar í stjórn Þórdunu er að halda utan um félagslífið hér í skólanum og leitast við að virkja sem flesta til starfa. Aðsókn að einstaka viðburðum er eins og gengur mjög mismunandi. Stærri viðburðirnir eru alltaf prýðilega sóttir. Næsti stórviðburður hjá okkur er söngkeppni skólans þann 7. febrúar og skráning í hana er í fullum gangi og lýkur á hádegi 21. janúar nk. Ég vil hvetja alla sem áhuga hafa að taka þátt í söngkeppninni að geyma ekki að skrá sig. Við verðum með einskonar „húsband“, sem spilar undir hjá öllum þátttakendum og því er þeim óheimilt að hafa með sér eigin hljómsveit í keppnina,“ segir Jónas, en söngkeppnin er jafnan mjög vel sótt og mikil stemning skapast í kringum hana. Á sl. ári sigraði Jóhann Óðinsson og stóð hann sig geysilega vel sem fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna, lenti þar í öðru sæti.

Næsti árlegri stórviðburður skólans að lokinni söngkeppninni er sjálf árshátíð skólans, sem verður í Íþróttahöllinni á Akureyri 1. mars. „Og síðan má nefna opna daga sem hefjast 12. mars og hið svokallað META-kvöld, þar sem nemendur VMA og MA leiða saman hesta sína í ýmsum óhefðbundnum keppnisgreinum,“ segir Jónas og bætir við að nú sé til athugunar að hafa fastar uppákomur í löngufrímínútum, t.d. tvo miðvikudaga í mánuði, þar sem t.d. verði tónlistaratriði eða eitthvað annað sem fangi augu og eyru viðstaddra. „Þetta hefur mér vitanlega ekki verið gert áður og við ætlum okkur að reyna að koma þessu á,“ segir Jónas.

Sem fyrr segir eru tíu nemendur í stjórn Þórdunu og fundar hún að jafnaði vikulega. Allar nánari upplýsingar um félagslífið er að finna á vef Þórdunu og eru nemendur hvattir til að hafa samband við stjórnarmenn ef þeim liggur eitthvað á hjarta varðandi félagslífið.