Fara í efni

Félagslífið í fullan gang

Hulda Þórey Halldórsdóttir, formaður Þórdunu - nemendafélags VMA.
Hulda Þórey Halldórsdóttir, formaður Þórdunu - nemendafélags VMA.

„Veturinn leggst bara mjög vel í mig. Sem fyrr leggjum við áherslu á gott félagslíf og það er eitt og annað framundan,“ segir Hulda Þórey Halldórsdóttir, formaður nemendafélagsins Þórdunu, en þetta er annar veturinn sem hún gegnir formennsku í Þórdunu.

Nýnemaferðir og nýnemaball

Í næstu viku, þriðjudaginn 26. og miðvikudaginn 27. ágúst, verða árlegar nýnemaferðir. Þá fara nýnemar og starfsmenn skólans út úr bænum og njóta samverunnar út í náttúrunni. Í þarnæstu viku, fimmtudaginn 4. september kl. 22, verður síðan nýnemaball í Sjallanum. Fram koma Birnir, Tónhylur og SZK. Forsöluverð aðgöngumiða er kr. 3500 en almennt verð 4500 kr.

„Mér líst mjög vel á nýnemahópinn. Við erum að stefna á kvöldvöku á fimmtudag í næstu viku, í kjölfarið á nýnemaferðunum, og vonumst til að sjá sem flesta nýnema þar til þess að gefa þeim ítarlegri upplýsingar um félagsstarfið í vetur. Og svo þurfum við auðvitað fulltrúa nýnema í stjórn Þórdunu,“ segir Hulda Þórey.

Eitt og annað á döfinni

Hulda Þórey segir að eitt og annað sé á döfinni í félagslífinu. Fljótlega verði teknar niður pantanir í ýmsar gerðir af VMA háskóla- og hettupeysum, Sturtuhausinn – söngkeppni VMA verði á sínum stað í nóvember og ýmsir minni viðburðir séu til skoðunar. Þá verði skoðið að endurvekja Leikfélag VMA, sem starfaði ekki á síðasta skólaári. Hulda hefur væntingar til þess að áhugasamir nemendur um leiklist stígi fram og blási lífi í leiklistarstarfið.

Tekst með góðu skipulagi

Hulda Þórey dregur ekki dul á að það sé mikil vinna að gegna formennsku í Þórdunu – til viðbótar við fullt nám í skólanum – en með góðu skipulagi og verkaskiptingu í stjórninni gangi þetta ágætlega upp. Til þess að vera sem best undirbúin fyrir skólabyrjunina fundaði stjórn Þórdunu á liðnu sumri í gegnum fjarfundarbúnað.

„Vissulega krefst þetta mikils skipulags en eftir að hafa verið formaður líka á síðasta skólaári veit ég betur um hvað þetta snýst. Í þessu er fólginn mikill lærdómur og reynsla. Nú veit ég hversu flókið og umfangsmikið það getur verið að skipuleggja viðburði. Það er okkur mikils virði að geta leitað til fyrirtækja um stuðning af ýmsu tagi og það er rétt að koma á framfæri bestu þökkum til þeirra. Og það er okkur líka dýrmætt að geta fengið stuðning og góð ráð frá Sólveigu viðburðastjóra skólans,“ segir Hulda Þórey og bætir við að stjórn Þórdunu fundi jafnan einu sinni í viku og oftar ef þess gerist þörf.