Fara í efni

Félagslífið í fullan gang

Fimm af sjö stjórnarmönnum í nemendafélaginu Þórdunu. Steinar Bragi Laxdal formaður, Linda Kristjáns…
Fimm af sjö stjórnarmönnum í nemendafélaginu Þórdunu. Steinar Bragi Laxdal formaður, Linda Kristjánsdóttir varaformaður, Guðmar Gísli Þorkelsson ritari, Sigurður Þorkelsson skemmtanastjóri og Þorsteinn Sveinsson formaður hagsmunaráðs.

Nemendafélagið Þórduna heldur sem fyrr utan um félagslífið í skólanum og þar stýra för í vetur Steinar Bragi Laxdal formaður, Linda Kristjánsdóttir varaformaður, Guðmar Gísli Þrastarson ritari, Sigurður Þorkelsson skemmtanastjóri, Þorsteinn Sveinsson formaður hagsmunaráðs, Margrét Stefánsdóttir kynningarstjóri og Óskar Óðinn Sigtryggsson gjaldkeri. Inn í stjórnina vantar eignastjóra og einnig verður kjörinn fljótlega fulltrúi nýnema í stjórn Þórdunu.

Félagslífið var fjörlegt og skemmtilegt síðasta vetur og segja þau Steinar Bragi og Linda, sem bæði voru í stjórn Þórdunu á síðasta skólaári, að ætlun stjórnarinnar sé að byggja á síðasta ári og bæta í. Enginn afsláttur verði gefinn af því.

Fyrsti stóri viðburður skólaársins í félagslífinu verður nýnemaballið sem verður í Sjallanum fimmtudagskvöldið 31. ágúst. Ballið var fjölmennt í fyrra og tókst gríðarlega vel og Steinar Bragi og Linda stefna á að það verði enn stærra í ár. Síðan mun hver viðburðurinn reka annan og þeir verða kynntir þegar nær dregur. Einnig verða gleðidagarnir, sem voru tíðir sl. vetur, á sínum stað á komandi skólaári.

Steinar Bragi og Linda eru í fullu námi í VMA, Steinar Bragi á viðskipta- og hagfræðibraut og Linda á íþrótta- og lýðheilsubraut. En þau gefa sér tíma til þess að vinna á fullu í félagsstarfinu í skólanum í þágu hans og nemenda. Þau neita því ekki að í þetta fari gríðarlega mikill tími en honum sé vel varið því þetta sé fyrst og fremst einstaklega gefandi, skemmtilegt og þroskandi. Mikilvægt sé að stjórn Þórdunu sé samstillt og vinni vel saman, eiginlega eins og ein fjölskylda.