Fara í efni

Félagslífið í fullan gang

Stjórnarmenn í Þórdunu og Skúli Gautason á fundi.
Stjórnarmenn í Þórdunu og Skúli Gautason á fundi.
Kraftur og háleit markmið einkenndu fyrsta fund stjórnar Þórdunu – nemendafélags VMA í gær en þar voru lagðar línur fyrir komandi vikur í félagslífi skólans. Nýmemavika í næstu viku gefur tóninn og síðan er ýmislegt í pípunum. Formaður Þórdunu er leyndardómsfullur og segir að ýmislegt í félagslífinu í vetur eigi eftir að koma á óvart.

Kraftur og háleit markmið einkenndu fyrsta fund stjórnar Þórdunu – nemendafélags VMA í gær en þar voru lagðar línur fyrir komandi vikur í félagslífi skólans.  Nýmemavika í næstu viku gefur tóninn og síðan er ýmislegt í pípunum. Formaður Þórdunu er leyndardómsfullur og segir að ýmislegt í félagslífinu í vetur eigi eftir að koma á óvart.

„Við munum hefja félagslífið með nýnemaviku í næstu viku – fyrstu helgina í september. Það skýrist í þessari viku hvernig að því verður staðið en við ætlum okkur að brjóta upp daginn – alla daga vikunnar – með ýmsum hætti og síðan stefnum við á stóra nýnemahátíð á fimmtudag í næstu viku. Það verður engin eiginleg busavígsla í ár frekar en í fyrra en þess í stað gerum við ýmislegt skemmtilegt, gleðin verður í fyrirrúmi. Það verður enginn niðurlagður og enginn píndur til þess að taka þátt,“ segir Hólmfríður Birgisdóttir, formaður Þórdunu.

Hólmfríður nefnir að fjölmargt sé á döfinni í félagslífinu í vetur. Þannig sé m.a. stefnt á nemendaböll og unnið sé að nýjum nemendaskírteinum sem fela m.a. í sér ríflegan afslátt á þjónustu margra fyrirtækja á Akureyri. „Við stefnum að því að nemendur fái þessi nýju skírteini í hendur í september og ég hvet alla nemendur VMA til að gerast félagar í Þórdunu og fá um leið nemendaskírteini. Ég fullyrði að það margborgar sig fyrir nemendur,“ segir Hólmfríður.

Af öðrum uppákomum á næstunni nefnir Hólmfríður að Tölvuklúbbur VMA stefni á LAN á þessari önn og þá er í bígerð kynning á klúbbum í skólanum og vert er að taka fram að opið er fyrir alla að koma fram með hugmyndir að nýjum klúbbum. „V ið erum að sjálfsögðu opin fyrir öllum góðum hugmyndum varðandi félagslífið og við hvetjum nemendum til þess að hafa samband við okkur,“ segir Hólmfríður. Hér má sjá nöfn stjórnarmanna í Þórdunu og símanúmer þeirra.

„Það eru nú þegar komnar margar skemmtilegar hugmyndir okkar í stjórninni og ég hef fulla trú á því að önnin verði viðburðarík, ég er viss um að margt á eftir að koma á óvart,“ segir Hólmfríður Birgisdóttir.