Fara í efni

Fékk góðan grunn í VMA

Benedikt Ómarsson, doktor í efnafræði.
Benedikt Ómarsson, doktor í efnafræði.
Benedikt Ómarsson, fyrrverandi nemandi í VMA, varði þann 1. nóvember sl. doktorsritgerð sína í efnafræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: „Tengjamyndun og umröðun í niðurbrotsferlum sameinda eftir víxlverkun þeirra við lágorkurafeindir.“ Benedikt segist afar þakklátur fyrir þann góða grunn í raungreinum sem hann fékk í VMA.

Benedikt Ómarsson, fyrrverandi nemandi í VMA, varði þann 1. nóvember sl. doktorsritgerð sína í efnafræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: „Tengjamyndun og umröðun í niðurbrotsferlum sameinda eftir víxlverkun þeirra við lágorkurafeindir.“ Benedikt segist afar þakklátur fyrir þann góða grunn í raungreinum sem hann fékk í VMA.

Benedikt Ómarsson erfrá Stykkishólmi, fæddur árið 1984. Hann lauk stúdentsprófi frá VMA árið 2004, vann eitt ár í Slippstöðinni á Akureyri og í prentsmiðju í Reykjavík og hóf síðan nám í efnafræði við Háskóla Íslands haustið 2005 og lauk B.Sc. gráðu árið 2008. Þá um haustið hóf Benedikt doktorsnám við efnafræðisvið Raunvísindadeildar HÍ undir handleiðslu Odds Ingólfssonar, prófessors við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, og því lauk hann með því að verja doktorsritgerð sína 1. nóvember sl.

„Fyrsta árið í framhaldsskóla tók ég í fjarnámi heima í Stykkishólmi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Ég fór síðan til Akureyrar haustið 2001 og tók síðustu þrjú árin til stúdentsprófs á náttúrufræðibraut VMA. Þetta var góður tími og áfangakerfið í VMA hentaði mér mjög vel.  Kennslan var mjög góð og efnafræðiáfangarnir hjá Benedikt Barðasyni kveiktu áhugann á efnafræði. Áfangakerfið gerði það líka að verkum að ég gat valið þau fög sem ég hafði mikinn áhuga á og fyrir vikið tók ég töluvert mikla stærðfræði. Þessi grunnur í VMA reyndist mér síðar mjög vel. Reyndar var það mín hugmynd að fara í grafíska hönnun eftir stúdentspróf en ég fékk ekki inngöngu í Listaháskólann. Þess í stað fór ég í efnafræði í HÍ og sé sannarlega ekki eftir því. Ég er sannast sagna þakklátur Listaháskólanum fyrir að hafa hafnað umsókn minni á sínum tíma,“ segir Benedikt.

Rannsókn Benedikts til doktorsprófs í efnafræði við HÍ er þannig lýst: Víxlverkun lágorkurafeinda og sameinda gegnir veigamiklu hlutverki á ýmsum sviðum, en þar má til að mynda nefna efnafræði andrúmsloftsins, í rafgösum og í niðurbroti á lífvirkum sameindum eftir háorkugeislun. Við lága orku (<15 eV) er hægt að lýsa þessari víxlverkun með tveimur megin skrefum. Fyrra skrefið felur í sér myndun á neikvæðri jón, yfirleitt í örvuðu ástandi. Þessi neikvæða jón er óstöðug og því er seinna skrefið slökun á kerfinu. Þessi slökun felur annað hvort í sér að rafeindin losnar, sem leiðir aftur til sameindar og frjálsrar rafeindar, eða að efnatengi rofna í gegnum ferli sem kallað er rjúfandi rafeindaálagning (e; dissociative electron attachment; DEA). Almennt eru þversniðin fyrir myndum neikvæðra jóna með rafeindaálagningu hæst þegar orka rafeindarinnar er nálægt 0 eV. Við þetta lága orku getur tengjarof hins vegar eingöngu átt sér stað ef rafeindasækni forvera hlaðna sameindabrotsins er meiri en tengjaorka tengisins sem var rofið. Engu að síður eru flókin DEA hvörf, þar sem mörg tengi eru rofin, oft ráðandi við rafeindaálagningu nálægt 0 eV. Þetta er einungis mögulegt ef hvarfgangur slíkra efnahvarfa felur í sér tengjamyndun, sem veitir orku til hvarfsins, samhliða tengjarofi. Slík DEA hvörf eru því drifin af myndun nýrra efnatengja í gegnum niðurbrotsferlinn.“

Meginmarkmið með doktorsverkefni Benedikts var að útskýra niðurbrotsferla sameinda eftir víxlverkun þeirra við lágorkurafeindir þar sem tengjarof, tengjamyndanir og umröðun er nauðsynleg. Þetta var gert með kerfisbundum rannsóknum á nokkrum sameindum, nánar tiltekið á einsetnu-pentaflúoróbensen afleiðunum pentaflúorotólueni, pentaflúoróanilíni og pentaflúorófenóli, á tvísetnu benzene afleiðunum tetraflúoró-para-hýdrókínóni og tetraflúoró-ortho-hýdrókínóni, á tetraflúoró-para-kínóni og að lokum á þremur beta-díketónum; hexaflúoróasetýlasetoni, tríflúoróasetýlasetoni og asetýlasetoni. Aðal niðurbrotsferlar þessara kerfa, sem sjást í gegnum tilraunirnar, eru útskýrðir með tölvureikningum þar sem efnahvörfin eru réttlætt út frá varmafræði og hvarfgangar niðurbrotsferlanna eru reiknaðir.

Benedikt segir að frá því að hann hóf doktorsnám hafi hann annast töluverða kennslu í efnafræðiáföngum í HÍ, jafnframt því að stunda rannsóknir undir handleiðslu Odds Ingólfssonar prófessors. Benedikt segist ætla að starfa eitthvað áfram að rannsóknum á Raunvísindastofnun en hann hafi vissulega áhuga á því í framtíðinni að starfa í útlöndum að rannsóknum í efnafræði, í það minnsta tímabundið.