Fara í efni

Fékk Erasmus-styrk til starfsnáms í matreiðslu í Marseille

Jóhannes Kristinn Hafsteinsson, matreiðslunemi.
Jóhannes Kristinn Hafsteinsson, matreiðslunemi.

Jóhannes Kristinn Hafsteinsson er á námssamningi í matreiðslu á Icelandair hóteli í Mývatnssveit. Honum bauðst að fara á Erasmus styrk til Frakklands núna á haustdögum, sem hluta af sínu starfsnámi, greip gæsina og sér síður en svo eftir því.

Jóhannes sagði að þetta hafi komið þannig til að Hildur Friðriksdóttir, sem annast erlend samskipti í VMA, hafi kynnt þennan möguleika fyrir nemendum á matvælabraut og honum hafi strax fundist þessi möguleiki svo áhugaverður að úr varð að hann sótti um og fékk styrk til þess að fara til Frakklands.

„Ég fór út 16. september og kom heim aftur 3. nóvember síðastliðinn, þetta var því hálfur annar mánuður. Styrkurinn frá Erasmus dugði vel fyrir ferðakostnaði og uppihaldi úti. Ég fór til Marseille í Suður-Frakklandi og var þar í skóla sem hafði veitingastað á sínum snærum sem heitir L’AGAPÉ.  Ég tala ekki frönsku og mér hafði verið sagt að þarna skildi fólk lítið annað en frönsku. En það var ekki alveg svo. Ábyrgðarmaðurinn minn þarna úti var ágætlega enskumælandi enda hefur hann dvalið í enskumælandi landi og hinir kennararnir gátu líka bjargað sér á ensku en það kom mér hins vegar nokkuð á óvart að enskukunnátta nemendanna var ekki mikil. Auk skólans vann ég síðustu tvær vikurnar á tveimur mismunandi veitingastöðum í Marseille og kynntist þannig fjölbreyttri matreiðslu sem var mjög fróðlegt. Frakkarnir leggja áherslu á að gera hlutina frá grunni. Þeir nota ólífuolíu í ríkum mæli, í stað hennar notum við meira smjör hér. Þeir eru líka með mikið af nýju og fersku grænmeti og elduðu allskyns fiskmeti sem við þekkjum ekki hér á landi. Á þessum sex vikum var ég farinn að skilja smá í frönskunni og ég gæti hugsað mér að læra meira í henni. Þessi ferð uppfyllti alveg tvímælalaust mínar óskir og væntingar og ég vil þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að fara þarna út,“ segir Jóhannes.

Haustið 2014 byrjaði Jóhannes nám í VMA. Tók fyrsta árið í félagsfræðideild en ákvað veturinn eftir að færa sig yfir í grunndeild matvælabrautar. Þar segist hann hafa fundið sína fjöl og ákvað í framhaldinu að halda áfram í matreiðslu. Fór á samning hjá Icelandair hóteli á Akureyri sumarið 2016 og og hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan, núna, sem fyrr segir, á Icelandair hóteli í Mývatnssveit. Á vorönn 2018 tók Jóhannes annan bekkinn í matreiðslu í VMA og hann hefur nú sótt um að taka þriðja bekkinn á vorönn 2019. Hann verður kenndur ef nægilega margar umsóknir berast. Jóhannes segir að það verði að koma í ljós hvort hann geti tekið þriðja bekkinn á næstu önn, ef ekki haldi hann áfram á námssamningi sínum og bíði þess að þriðji bekkurinn verði næst í boði. Til viðbótar komi einnig vel til greina að ljúka þeim fögum sem hann eigi ólokið til þess að taka stúdentspróf.

„Ég var mjög óráðinn í því hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur. En eftir að ég byrjaði í matreiðslunni fann ég að þetta var eitthvað sem mig langaði að læra, þetta var mín hilla. Ég var svo heppinn að komast á samning hjá Icelandair hótelum og hef því haft tækifæri til þess að vinna með mörgum kokkum. Af hverjum kokki lærir maður alltaf eitthvað nýtt og safnar þannig í sarpinn,“ segir Jóhannes Kristinn Hafsteinsson.